Halldór Laxness
Halldór Laxness
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl ENN er sitthvað á huldu um aðdragandann að ákvörðun sænsku akademíunnar um að veita Halldóri Laxness Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 27.
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl

ENN er sitthvað á huldu um aðdragandann að ákvörðun sænsku akademíunnar um að veita Halldóri Laxness Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 27. október 1955, en í dag eru liðin rétt 50 ár síðan hann tók við verðlaunum í Stokkhólmi. Rannsóknir Halldórs Guðmundssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á störfum akademíunnar hafa leitt í ljós að allt fram undir miðjan október var sú hugmynd að Laxness og Gunnar Gunnarsson myndu skipta með sér verðlaununum rædd formlega. Tillögunni var hafnað afdráttarlaust í atkvæðagreiðslu og Gunnari þar með en Halldór hlaut fjögur atkvæði.

Vangaveltur eru uppi um það hvers vegna Gunnari er hafnað algjörlega og meðal annars nefnd hugsanleg íhlutun nokkurra íslenskra menntamanna og meintur nasismi Gunnars. Í grein sem Halldór Guðmundsson ritar í Lesbók í dag kemur fram að Gunnar hafi fengið hringingu frá sænsku akademíunni árið 1955 þess efnis að babb væri komið í bátinn vegna tengsla hans við Þýskaland. Mun Gunnar hafa reiðst símtalinu mikið og lokið því með því að skella á.

Hugsanlega verður skorið úr um það hvernig Halldór fékk verðlaunin þegar greinargerð Nóbelsnefndarinnar og sérálit einstakra meðlima hennar frá því í lok október 1955 verða opinberuð í byrjun næsta árs en sænska akademían heldur gögnum um aðdraganda ákvörðunar um Nóbelsverðlaun lokuðum í fimmtíu ár.

Í grein sinni í Lesbók í dag veltir Halldór Guðmundsson því fyrir sér hvaða áhrif það hefði haft á Gunnar og íslenska menningarpólitík ef Gunnar hefði hlotið verðlaunin.