Stjórnin fundar Jafnréttið er haft að leiðarljósi við stjórnarstörf í Tónlistarfélagi Reykjanesbæjar. Hér er Una Steinsdóttir fyrir miðju kvennamegin með Dagnýju Gísladóttur meðstjórnanda á hægri hönd og Aðalheiði Gunnarsdóttur gjaldkera vinstra megin. Karlamegin borðsins sitja Kristján Jóhannsson, nær, og Ellert Eiríksson, en þeir eru meðstjórnendur.
Stjórnin fundar Jafnréttið er haft að leiðarljósi við stjórnarstörf í Tónlistarfélagi Reykjanesbæjar. Hér er Una Steinsdóttir fyrir miðju kvennamegin með Dagnýju Gísladóttur meðstjórnanda á hægri hönd og Aðalheiði Gunnarsdóttur gjaldkera vinstra megin. Karlamegin borðsins sitja Kristján Jóhannsson, nær, og Ellert Eiríksson, en þeir eru meðstjórnendur. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur Reykjanesbær | "Það eru aðallega tvö markmið sem við hyggjumst einbeita okkur að í vetur.
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur

Reykjanesbær | "Það eru aðallega tvö markmið sem við hyggjumst einbeita okkur að í vetur. Annars vegar að fjölga félagsmönnum í 200 og að reyna að ná til yngra fólks," sagði Una Steinsdóttir, formaður Tónlistarfélags Reykjanesbæjar, sem hóf sitt þriðja starfsár fyrir skömmu.

Það þarf drífandi fólk í grasrótarstarf. Una Steinsdóttir þekkir það mætavel en hún hefur verið í forsvari fyrir Tónlistarfélag Reykjanesbæjar eftir að það var endurreist haustið 2002. Slíkt sjálfboðaliðastarf tekur líka drjúgan tíma enda hafði Una hugsað sér að hætta störfum í haust eftir tveggja ára formennsku, ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum. Vegna fjölda áskorana sat hún áfram og þær litlu breytingar sem urðu á stjórn falla vel að jafnréttissjónarmiðum. Körlum fjölgaði og nú sitja í stjórn þrjár konur og tveir karlar.

Mikill metnaður fyrir hönd félagsins

Þriðji starfsvetur Tónlistarfélagsins hófst með miklum krafti í síðasta mánuði. Tvennir tónleikar voru haldnir í Listasafni Reykjanesbæjar, einir kvöldtónleikar og einir hádegisaðventutónleikar. Þau ánægjulegu tíðindi bárust félaginu einnig í síðasta mánuði að bærinn myndi auka starfsstyrk félagsins um 100 þúsund krónur. "Við höfum fengið mikið klapp á bakið. Við þurfum þó að fjölga meðlimum og ég auglýsi hér með eftir fleiri félögum í tónlistarfélagið," sagði Una í samtali við Morgunblaðið. Una sagði jafnframt að sér sýndist félagið hafa verið hvatning fyrir aðra hópa og nefndi sérstaklega Rythma- og bluesfélag Reykjanesbæjar sem fór af stað stuttu á eftir tónlistarfélaginu og fékk í síðasta mánuði þriggja ára menningarstyrk frá Reykjanesbæ.

Að minnsta kosti þrennir tónleikar að vetri

Eins og undanfarna tvo vetur er stefnan að bjóða upp á að minnsta kostir þrenna tónleika yfir veturinn og nú þegar er hafin vinna við nýárstónleika félagsins í ársbyrjun 2006. "Við höfum það einnig á okkar stefnuskrá að horfa okkur nær, ekki bara fjær í vali á tónlistarefni, styrkja allt þetta frábæra tónlistarfólk sem tengist Reykjanesbæ og bæjarfélögunum í kring. Það er oft ekki ástæða til að sækja vatnið yfir lækinn." Una nefndi sérstaklega að markmiðið væri að ná til yngra fólks þar sem reynslan hafi sýnt henni að lítið sé um ungt fólk á tónleikum. Að vísu trekkti Páll Óskar að nokkuð af ungu fólki á Listasafnið í nóvemberbyrjun þegar hann kom fram með Monicu Abendroth en erfiðara er að ná markmiðinu með klassíska sviðið. "Þetta er að sjálfsögðu ekki bundið við þetta svæði, þetta á almennt við alls staðar, en það væri gaman ef við gætum reynt að breyta þessu," sagði Una að lokum og hefur mikinn metnað fyrir hönd félagsins, vill sjá það verða að fyrirtæki á borð við Salinn í Kópavogi eða Hafnarborg í Hafnarfirði og horfir þá til Duus-húsa.