MIKIL hátíð fór fram í gærkvöldi í Leipzig þegar dregið var í riðla fyrir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í Þýskalandi næsta sumar.
Fulltrúar liðanna 32, sem leika í úrslitakeppninni, biðu spenntir eftir niðurstöðunni. Var það mál manna að hátíðin í Leipzig gæfi góð fyrirheit um spennandi og skemmtilega keppni næsta sumar.
Þjóðverjar telja sig vera heppna með útkomuna þar sem gestgjafarnir leika í riðli með Kosta Ríka, Póllandi og Ekvador. Opnunarleikur keppninnar verður viðureign Þjóðverja og Kosta Ríka 9. júní.
Fjölmiðlar voru strax farnir að rýna í kristalskúluna og velta fyrir sér stórleikjum í 16 liða úrslitum.
Margir heimskunnir knattspyrnumenn voru framkvæmdanefndinni til aðstoðar í Leipzig í gærkvöldi, þar á meðal Johan Cryuff frá Hollandi og Brasilíumaðurinn Pelé. | Íþróttir