Stafræn jólakort á vef Menntagáttar Nýlega var opnað jólakortasafn á Menntagátt. Allir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum geta sent inn myndir í safnið sem verða sjálfkrafa að jólakortum.

Stafræn jólakort á vef Menntagáttar

Nýlega var opnað jólakortasafn á Menntagátt. Allir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum geta sent inn myndir í safnið sem verða sjálfkrafa að jólakortum. Hægt er að senda jólakortin í tölvupósti til vina og ættingja um allan heim. Notkun á safninu er gjaldfrjáls.

Auk þess sem allir nemendur fá myndirnar sínar birtar í jólakortasafninu hljóta valdar myndir sérstaka viðurkenningu og verða höfundar þeirra verðlaunaðir. Skólavörubúðin veitir viðurkenningarnar. Engar sérstakar kröfur eru gerðar til mynda aðrar en að myndefnið henti á jólakort og að sköpunargleðin fái að njóta sín. Myndir skulu sendar í gegnum vef jólakortasafnsins á Menntagátt og geta þær verið af ýmsum stærðum og gerðum, skannaðar myndir, myndir teknar á stafrænar myndavélar, myndir unnar í myndvinnsluforritum eða blanda af þessum aðferðum.

Myndir sem berast fyrir 14. desember eiga möguleika á að hljóta viðurkenningu. Tilkynnt verður hvaða myndir hljóta viðurkenningar 16. desember. Hætt verður að taka við myndum 31. desember. Jólakveðjur er hægt að senda frá 14. nóvember og til 6. janúar. Vefslóðin er: www.menntagatt.is/gallery