Starfsmenn leikskóla horfa til þeirra kjarabóta sem eru í kjarasamningi Eflingar.
Starfsmenn leikskóla horfa til þeirra kjarabóta sem eru í kjarasamningi Eflingar.
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is Minni hækkanir í kjarasamningum Launanefndar Kjarasamningar borgarinnar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar fela í sér talsvert mikla upphafshækkun eða um 15%.
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is

Minni hækkanir í kjarasamningum Launanefndar

Kjarasamningar borgarinnar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar fela í sér talsvert mikla upphafshækkun eða um 15%. Beinar taxtahækkanir hjá Eflingu á samningstímanum eru 25%, að sögn formanns Eflingar. Að auki hækka framlög í lífeyrissjóð um 2,5%. Kostnaðurinn er meiri en við samninga sem Launanefnd sveitarfélaganna hefur verið að gera, en hann er samtals um 22% á þriggja ára tímabili.

Kjarasamningar Reykjavíkurborgar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Eflingu virðist hafa komið talsverðu róti á kjaramál annarra félaga sem semja við sveitarfélögin. Félag leikskólakennara, Félag grunnskólakennara og mörg starfsmannafélög hafa sent Launanefnd sveitarfélaganna bréf og óskað eftir að kjaraviðræður verði teknar upp að nýju. Þetta er frekar óvenjulegt því að sum þessi félög hafa nýlega gengið frá kjarasamningi sem gilda á til þriggja ára.

Til að átta sig á þeim kjarasamningum sem Reykjavíkurborg gerði um síðustu helgi er rétt að rifja upp í hvaða umhverfi þeir voru gerðir. Í fyrsta lagi höfðu komið upp ýmis vandamál við framkvæmd síðustu samninga borgarinnar við Starfsmannafélagið og Eflingu. Samningarnir gerðu ráð fyrir að tekið yrði upp starfsmat 1. desember 2002. Vinna við starfsmatið og framkvæmd þess tók hins vegar lengri tíma en áætlað var og var það ekki tekið upp fyrr en í árslok 2004 og raunar náðist ekki að ljúka mati á öllum störfum fyrr en á þessu ári. Svokölluð hæfnislaun, sem félagsmenn höfðu einnig bundið vonir við að færðu þeim launabætur, voru endanlega ekki tekin upp fyrr en í haust þegar samningurinn var að renna út. Meðal félagsmanna í þessum félögum var mikil óánægja með að þetta skyldi dragast auk þess sem ýmsir voru óánægðir með hlut sinn í starfsmatinu.

Í öðru lagi hefur Reykjavíkurborg, eins og fleiri vinnuveitendur, átt í erfiðleikum með að fá til sín starfsfólk á þjónustustofnanir borgarinnar. Flestum ber saman um að ástæðan hafi verið lág laun. Þrýstingur á að bæta launin hefur því verið mikill, ekki aðeins frá stéttarfélögunum heldur einnig frá stjórnmálamönnum og forstöðumönnum stofnanna sem eru að berjast við að manna þær.

Í þriðja lagi er líka rétt að hafa í huga að nokkrir samningar sem starfsmannafélög hafa verið að gera á þessu ári við Launanefnd sveitarfélaganna hafa verið felldir í atkvæðagreiðslu. Samningar Starfsmannafélags Kópavogsbæjar voru t.d. felldir í tvígang. Þetta bendir til að talsverð óánægja hafi verið meðal starfsmanna sveitarfélaganna með launaþróun í þeirra röðum.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Launanefndar sveitarfélaganna, segir að samningar sem nefndin hafi gert við starfsmannafélög í sumar og haust hafi falið í sér að meðaltali 22% kostnaðarhækkanir á samningstímanum, sem almennt er til nóvemberloka 2008.

Ekki fengust upplýsingar frá Reykjavíkurborg um kostnað við kjarasamningana, en kostnaðarútreikningar verða lagðir fyrir borgarráð á þriðjudag. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sagði í samtali við Morgunblaðið að beinar hækkanir á taxta á samningstímanum væru um 25%. Upphafshækkunin er um 15% að meðaltali. Til viðbótar hækka greiðslur borgarinnar í lífeyrissjóð um 2,5 prósentustig og í starfsmenntasjóð um 0,3 prósentustig.

Sigurður leggur áherslu á að um sé að ræða láglaunastörf sem séu að stærstum hluta unnin af konum. Þessi umönnunarstörf hafi dregist aftur úr og að hans mati hafi verið allgóð sátt í samfélaginu að hækka laun þessa hóps með svipuðum hætti og að sátt hafi tekist um það árið 2000 að hækka laun grunnskólakennara meira en annarra.

Hörð viðbrögð

Þó að Félag leikskólakennara fagni því að Eflingu hafi tekist að hækka laun sinna félagsmanna telur félagið að með þessum launahækkunum felist ákveðin óvirðing við menntun leikskólakennara. Í erindi félagsins til Launanefndar sveitarfélaganna eru nefnd dæmi um að laun leikskólakennara séu orðin lægri en félagsmanna í Eflingu. Borgarstjóri hefur falið launaskrifstofu borgarinnar að meta þessa gagnrýni félagsins og verður erindi þessa efnis lagt fyrir borgarráð eftir helgina.

Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, sem samdi í apríl, hefur einnig sent frá sér harðorða ályktun um þá stöðu sem upp er komin í kjaramálum. Félagið segir að skólaliðum hjá borginni sé raðað 12 launaflokkum ofar í launatöfluna en skólaliðum í Hafnarfirði. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði átti í gær fund með félaginu og í yfirlýsingu sem hann sendi eftir fundinn segir: "Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði munu ekki sætta sig við það að kjör starfsmanna bæjarfélagsins séu með öðrum og lakari hætti varðandi sambærileg störf en almennt gerist í sveitarfélögum hér á landi. Slíkt rýrir traust á sveitarfélaginu og grefur undan trúverðugleika starfsmanna og um leið þeirri ábyrgð og festu sem bæjaryfirvöld sýna."