"STJÓRNVÖLD draga væntanlega sinn lærdóm af áliti umboðsmanns Alþingis," segir Sólveig Pétursdóttir, fyrrv. dómsmálaráðherra. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að búið sé að breyta lögum um útlendinga frá þeim tíma sem um ræðir.

"STJÓRNVÖLD draga væntanlega sinn lærdóm af áliti umboðsmanns Alþingis," segir Sólveig Pétursdóttir, fyrrv. dómsmálaráðherra. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að búið sé að breyta lögum um útlendinga frá þeim tíma sem um ræðir.

Sólveig segist ekki telja rétt að "útiloka að það geti komið upp þær aðstæður að stjórnvöld telji sig þurfa að grípa til úrræða til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu og til þess að virða alþjóðlega sáttmála".

Hún kveðst sjálf ekki hafa lesið álit umboðsmanns, heldur sé hún nýbúin að frétta af því. Sólveig segir að hún taki að sjálfsögðu mark á ábendingum umboðsmanns eins og stjórnvöld geri. Hún bendir á að mál Falun Gong-liðanna hafi verið allsérstakt.

"Forseti Kína var að koma hingað í opinbera heimsókn en á sama tíma skipulögðu stórir hópar Falun Gong-liða komu sína hingað til lands. Hér á Íslandi er fámennt lögreglulið og stjórnvöld óttuðust að það yrði ekki hægt að halda uppi lögum og reglu í tengslum við heimsóknina eins og þau eru skuldbundin til samkvæmt alþjóðasáttmálum. Þess vegna var gripið til ráða sem vissulega voru umdeild á sínum tíma," segir Sólveig.

Björn Bjarnason bendir á að þessir atburðir hafi gerst fyrir þremur og hálfu ári í tíð útlendingalaga frá 1965. "Síðan hafa ný útlendingalög komið til sögunnar. Ef þörf reynist á því að gera enn frekari lagaumbætur í ljósi þessa álits verður að sjálfsögðu litið til þess," segir Björn, inntur eftir því hvort stjórnvöld hyggist grípa til aðgerða vegna álits umboðsmanns.

Spurður um hvort til greina komi að íslensk stjórnvöld biðji Falun Gong-liða afsökunar á því að hafa óskað eftir því að þeir fengju ekki að fljúga hingað til lands, segir Björn að í áliti umboðsmanns sé ekki farið fram á slíkt en hins vegar sagt, að það verði að vera verkefni dómstóla að skera úr um það, hvort íslenska ríkið hafi með umræddum ákvörðunum bakað sér skaðabótaskyldu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi hliðsjón af álitum umboðsmanns Alþingis við ákvarðanir sínar jafnt á þessu sviði sem öðrum.