ATORKA Group hefur gert yfirtökutilboð í öll hlutabréf í Jarðborunum en Atorka á 56,25% hlutafjár í félaginu.

ATORKA Group hefur gert yfirtökutilboð í öll hlutabréf í Jarðborunum en Atorka á 56,25% hlutafjár í félaginu. Tilboðsverð er 25 og er greitt fyrir með hlutum í Atorku Group á genginu 6 sem er sama verð og Atorka greiddi fyrir eignarhlut í Jarðborunum þann 16. nóvember sl. Er það hæsta verð sem Atorka hefur greitt fyrir hluti í félaginu á undanförnum sex mánuðum. Yfirtökutilboðið gildir til 16. janúar.

Eins og sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu telur greiningardeild KB banka að tilboð upp á 25 krónur á hlut endurspegli ekki þau verðmæti sem fólgin séu í rekstri Jarðborana. Telur greiningardeildin að hlutafé Jarðborana sé rúmlega 12 milljarða króna virði, sem gefur verðmatsgengið 31,1 á hlut.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort tilboði Atorku yrði tekið, en að sú ákvörðun yrði tekin á stjórnarfundi á föstudaginn í næstu viku. Orkuveitan er næst stærsti hluthafinn í Jarðborunum.