FULLTRÚAR á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í heiminum voru í gærkvöldi nálægt samkomulagi um að hefja samningaviðræður um aðgerðir til að draga úr losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2012 þegar Kyoto-bókunin fellur úr gildi. Fulltrúar Bandaríkjanna höfðu í gærkvöldi ekki fallist á slíkar viðræður þótt fast hefði verið lagt að þeim að gera það.
Ráðstefnunni, sem hófst í Montreal 28. nóvember, átti að ljúka í nótt og ekkert benti til þess í gærkvöldi að samninganefnd Bandaríkjastjórnar myndi gefa eftir.
Alls hafa 157 ríki staðfest Kyoto-bókunina frá 1997 en George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hafnaði henni formlega árið 2001 og sagði að hún myndi skaða efnahag landsins. Stjórn hans vill beita öðrum ráðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka t.a.m. fjárfestingar í nýrri tækni.
Gefa sér sjö ár
Þrátt fyrir andstöðu Bandaríkjastjórnar voru flest ríkin, sem hafa staðfest Kyoto-bókunina, hlynnt því að hefja viðræður á næsta ári um aðgerðir til að stemma stigu við loftmenguninni eftir að bókunin fellur úr gildi árið 2012. Ríkin gefa sér sjö ár til að semja um aðgerðirnar og staðfesta þær. Umhverfisverndarsinnar vona að Bandaríkin taki þátt í viðræðunum eftir að Bush lætur af embætti í janúar 2009.Ráðstefnuna sátu nær 10.000 fulltrúar ríkisstjórna, fyrirtækja, vísindastofnana og samtaka umhverfisverndarsinna. Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, flutti ræðu á ráðstefnunni í gærkvöldi og sagði það "alrangt" að aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda myndu skaða efnahag landsins.