I Breska leikskáldið og andófsmaðurinn Harold Pinter hlýtur nóbelsverðlaunin í bókmenntum í dag.

I Breska leikskáldið og andófsmaðurinn Harold Pinter hlýtur nóbelsverðlaunin í bókmenntum í dag. Hann getur reyndar ekki veitt þeim viðtöku sjálfur vegna veikinda en á miðvikudaginn hélt hann nóbelsræðu sína í beinni útsendingu á netinu sem hann hefði annars flutt við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi í dag. Hann þakkaði fyrir sig með eitruðum sendingum til ráðamanna valdamestu þjóða heims og hernaðarbrölti þeirra fyrr og nú. Nóbelsverðlaunahafar hafa raunar löngum verið harðskeyttir pólitískir gagnrýnendur - eða að minnsta kosti samfélagslega ábyrgir í verkum sínum - og víkur Pinter því ekki langt frá hefðinni þótt það sé reyndar óvenjulegt að hann hefur varla starfað sem rithöfundur svo heitið geti í tuttugu ár heldur miklu fremur sem andófsmaður. Í ræðu sinni spyr Pinter reyndar: Hvað hefur orðið um siðferðisvitund okkar?

II Pinter beinir spjótum sínum einkum að utanríkisstefnu Bandaríkjamanna og Breta en það hefur verið helsta umfjöllunarefni hans síðustu tvo áratugi eða svo en þeim tíma hefur hann ekki varið til leikritaskrifa heldur aktífrar andstöðu við ríkisstjórnir þessara landa. Ræðan er þannig eins og ágætis upprifjun á mörgum þeim greinum sem Pinter hefur skrifað undanfarin ár í nafni málstaðarins - og sem fyrr er hann magnaður. Titill ræðunnar er Art, Truth & Politics eða List, sannleikur og stjórnmál og í samræmi við hann leiðir Pinter okkur frá sannleikann í listum til sér hjartfólgnara máls sem er sannleikurinn í stjórnmálum. Munurinn er sá að í listum er enginn einn sannleikur til, í listum er enginn greinarmunur gerður á raunveruleika og óraunveruleika eða sannleika og lygi, en þegar kemur að samfélagslegum eða pólitískum veruleika verður maður að spyrja: Hvað er satt? Hvað er lygi? Pinter bendir hins vegar á að stjórnmálamenn séu sjaldnast uppteknir af sannleikanum, þeirra ær og kýr séu völdin. Og til þess að halda völdum segir hann nauðsynlegt fyrir stjórnmálamann að fólk sé fávíst um það hvernig hlutirnir eru í raun og sannleika. "Við lifum því í þéttriðnu neti lyga sem við sækjum okkur næringu í," segir Pinter. Eftir örstutta lýsingu á því hvernig verk hans verða til upp úr einni setningu, einu orði eða mynd fjallar hann í löngu máli um utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar sem hann segir hafa snúist um að styðja við eða stofna til allra þeirra hægriöfgasinnuðu herstjórna sem sögur fara af þessi sextíu ár. Hann segist eiga við Indónesíu, Grikkland, Úrúgvæ, Brasilíu, Paragvæ, Haítí, Tyrkland, Filippseyjar, Gvatemala, El Salvador og auðvitað Síle: "Hörmungarnar sem Bandaríkjamenn ollu Sílebúum árið 1973 verður aldrei hægt að má burt og aldrei hægt að fyrirgefa." Hann segir að hundruð þúsunda manna hafi látið lífið í þessum löndum. "Eða hvað? Dó allt þetta fólk? Og hefur dauði þess verið settur í samband við utanríkisstefnu Bandaríkjanna? Svarið er já," segir Pinter, "þetta fólk dó og dauði þess tengist utanríkisstefnu Bandaríkjanna. En þú myndir bara aldrei hafa frétt af því." Og Pinter heldur áfram: "Það gerðist aldrei. Það gerðist aldrei neitt. Jafnvel á meðan það var að gerast gerðist það ekki. Það skipti ekki máli. Það kom engum við. Glæpir Bandaríkjanna hafa verið kerfisbundnir, viðvarandi, grimmilegir, samviskulausir en samt hafa mjög fáir talað um þá í raun og veru. Maður verður að viðurkenna að Bandaríkjamenn hafa komið sér upp mjög vísindalegri misnotkun á valdi um heim allan á sama tíma og þeir sigla undir fána hins algóða afls. Þetta er eitursnjöll, jafnvel bráðfyndin og einstaklega vel heppnuð dáleiðsla."

III Í lok ræðunnar dregur Pinter þá ályktun að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að reyna að skilgreina hvað sé raunverulega satt í þessum heimi. Það sé skylda okkar. Ef við heykjumst á því pólitíska verkefni eigum við enga möguleika á að endurheimta mennsku okkar. Pinter spyr í ræðunni hvað hafi orðið um siðferðisvitund okkar. Gárungarnir kunna að spyrja á móti: Hvað varð um bókmenntirnar?