Guðrún Dögg Guðmundsdóttir
Guðrún Dögg Guðmundsdóttir
Eftir Guðrúnu Dögg Guðmundsdóttur: "Ofbeldi hefur áhrif á líf milljóna kvenna um allan heim óháð menningu og þjóðfélagshópi og er ein versta birtingarmynd ójafnrar stöðu kynjanna."

Í DAG, á alþjóðlegum mannréttindadegi, lýkur 16. daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið ber yfirskriftina Heilsa kvenna, heilsa mannkyns; Stöðvum ofbeldið! Í tilefni dagsins stendur Mannréttindaskrifstofa Íslands fyrir málfundi um mannréttindi kvenna og heilsu. Fundurinn verður á Hótel Centrum, kl. 13:00-14:30.

Ofbeldi hefur áhrif á líf milljóna kvenna um allan heim óháð menningu og þjóðfélagshópi og er ein versta birtingarmynd ójafnrar stöðu kynjanna. Talið er að ein af hverjum þremur konum verði fyrir alvarlegu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni.

Kynbundið ofbeldi tekur á sig margvíslegar myndir allt frá heimilisofbeldi og nauðgun til kynfæralimlestinga og nauðungarhjónabanda. Nýleg rannsókn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sýnir þó að heimilisofbeldi er stærsta ógnin við líf og heilsu kvenna og alvarlegt heilbrigðisvandamál um allan heim.

Um helmingur þeirra kvenna sem þolað hafa ofbeldi af hendi maka sinna hafa fengið alvarlega líkamlega áverka og konur sem einhvern tímann hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi maka er tvisvar sinnum líklegri en aðrar konur til að þjást af andlegu og líkamlegu heilsuleysi. Meðal einkenna eru þunglyndi, sjálfsvígstilraunir, kvíði, verkir, svimi en einnig hefur heimilisofbeldi gjarnan alvarleg áhrif á kynheilsu kvenna. Rannsókn alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sýnir að konum sem eru í ofbeldissamböndum er hættara við að missa fóstur en öðrum: 4-12% þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni höfðu verið beittar ofbeldi á meðgöngu. Í 90% tilvikanna var það faðir hins ófædda barns sem beitti ofbeldinu.

Kynbundið ofbeldi er alvarlegt vandamál á Íslandi. Árlega leita hundruð kvenna til Stígamóta, Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og Kvennaathvarfsins. Opinber úrræði fyrir þessar konur eru takmörkuð og aðeins lítill hluti leitar réttar síns.

Í framhaldi af 16 daga átaki 2004 voru lögð fram drög að aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem komið var á framfæri við stjórnvöld. Þar er lögð áhersla á gerð opinberrar aðgerðaáætlunar er taki til löggjafar, dómstóla, saksóknara og löggæslu, félagslegra úrræða, fræðslu til almennings og fagaðila; ásamt sértækum aðgerðum innan mennta-, heilbrigðis- og félagslega kerfisins. Þegar hefur nokkur árangur náðst en unnið er að margvíslegum verkefnum á vegum stjórnvalda, m.a. er verið að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga.

Enn hefur þó ekki verið gripið til markvissra aðgerða til að taka á kynbundu ofbeldi sem heilbrigðisvandamáli. Ég vil ítreka tilmæli sem fram koma í drögum að aðgerðaáætlun en þar er m.a. lagt til að þjónusta neyðarmóttöku vegna nauðgunar verði styrkt, að komið verði á formlegri fræðslu um forvarnir og greining, skráning, meðferð og úrræði fyrir fórnarlömb kynbundins ofbeldis verði hluti af námsefni allra heilbrigðisstétta. Þá er mikilvægt að skráning tilvika, þar sem grunur leikur á að kynbundið ofbeldi hafi átt sér stað, verði stöðluð.

Yfirskrift 16 daga átaks er Heilsa kvenna, heilsa mannkyns: Stöðvum ofbeldið. Ég skora á íslensk heilbrigðisyfirvöld að gera þessi orð að sínum og setja sér heildstæðar vinnureglur sem miða að því að sporna gegn og bregðast markvisst við kynbundnu ofbeldi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Höf.: Guðrúnu Dögg Guðmundsdóttur