Þú liggur en ert um leið að þjálfa vöðvana. Þannig lýsir Jakobína Flosadóttir sjúkraliði vaxtamótunarmeðferð þeirri sem boðið er upp á í Bailine í Vegmúla í Reykjavík. Bailine var formlega opnuð í lok október sl. og er að norskri fyrirmynd. "Í meðferðinni eru notaðar blöðkur og rafleiðni sem stinnir húðina og eykur brennsluna," útskýrir hún.
Viðkomandi leggst m.ö.o. á bekk og við vöðvana eru settar blöðkur. Frá þeim eru sendar rafbylgjur, segir hún, til vöðvanna. Við það dragast vöðvarnir saman, en síðan slaknar á þeim. "Á meðan hlustar viðkomandi á hvatningar- og fræðslugeisladiska, sem eru lesnir af Margréti Helgu Jóhannsdóttur," segir hún.
Hún segist hafa kynnst og lært þessa meðferð í Danmörku, en nafnið Bailine er upprunalega frá Noregi. Stofur með því nafni eru víða á hinum Norðurlöndunum, segir hún. "Meðferðin er í raun þríþætt. Í fyrsta lagi erum við með tölvustýrð þjálfunartæki, í öðru lagi andlega þjálfun og í þriðja lagi leiðbeinum við þeim sem vilja léttast, um rétt mataræði."
Hún segir að konur geti komið í ókeypis prufutíma og farið í vaxtargreiningu, þar sem mæld er þyngd, hæð, ummál og fleira. "Við mötum tölvuna á þeim upplýsingum og út frá því ákveður tölvan hvaða meðferð konan ætti að fara í. Enginn kona er eins og því erum við með hundrað mismunandi forrit."
Aðspurð segir hún af og frá að meðferðin hafi slæm áhrif á líkamann. Þessi aðferð hafi verið reynd í fjöldamörg ár og á sama tíma hafi hún verið í stöðugri þróun. "Þetta eykur styrkinn, líkt og værir þú í góðri leikfimi," segir hún og bætir því við að það sé nóg að mæta tvisvar í viku til að ná árangri.