Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.
Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is

RÚSSNESKA gasfyrirtækið Gazprom, sem á nýársdag skrúfaði fyrir gas til Úkraínu, sakaði í gær úkraínsk stjórnvöld um að taka til sín gas að verðmæti upp á 25 milljónir Bandaríkjadala sem ætlað væri viðskiptavinum í Evrópu. Sagði Alexander Medvedev, varastjórnarformaður Gazprom sem er í meirihlutaeigu rússneska ríkisins, að bara á sunnudag hefðu Úkraínumenn tekið til sín 100 milljón rúmmetra af gasi.

"Ef þessi þjófnaður heldur áfram og í svo miklum mæli mun verðmæti þýfisins nema umtalsverðum fjárhæðum," sagði Medvedev.

Viktor Jústsjenkó, forseti Úkraínu, harðneitaði því hins vegar að Úkraínumenn tækju til sín gas sem ætlað væri Evrópu. En hann gaf í skyn að Úkraína tæki toll af gasflutningum til að standa straum af þeim kostnaði sem félli til vegna flutninga á gasinu um landið.

Forsætisráðherra Úkraínu, Júríj Jekhanúrov, hefur áður sagt að Úkraína eigi rétt á 15% af því gasi sem enn fer um gasleiðslur í Úkraínu og er ætlað evrópskum markaði.

Gasdeila Rússa og Úkraínumanna er nú í afar hörðum hnút eftir að Gazprom skrúfaði fyrir gasið til Úkraínu vegna ágreinings um verð. Hafa Evrópumenn miklar áhyggjur af þróuninni, enda kemur um fjórðungur þess gass sem notað er í álfunni um gasleiðslur er liggja um Úkraínu og því fyrirsjáanlegt að gasdeilan muni hafa áhrif þar. Forsvarsmenn Gazprom segjast hins vegar ekki hafa átt annan kost í stöðunni, einungis hafi verið ætlunin að láta Úkraínu greiða svipað verð og tíðkaðist í Evrópu. Þarlend stjórnvöld hafi hins vegar sýnt óbilgirni og harðneitað slíkum óskum.

Margir telja þó að aðgerðir Gazprom séu liður í þeirri fyrirætlan rússneskra ráðamanna að refsa úkraínskum stjórnvöldum sem horft hafa til vesturs eftir að Viktor Jústsjenkó var kjörinn forseti landsins fyrir rúmu ári. Væri þetta raunar ekki í fyrsta skipti sem Gazprom er notað með þessum hætti, Rússar hafa áður beitt þau ríki hörðu sem þeir álíta á sínu áhrifasvæði en sem ögrað hafa stjórnvöldum í Moskvu.

Þannig var skrúfað fyrir gas til Hvíta-Rússlands í febrúar 2004 eftir að Alexander Lúkasjenkó, hinn umdeildi og óútreiknanlegi forseti landsins, hafði reitt rússneska ráðamenn til reiði einum of oft.

Ríki á áhrifasvæði Rússa hafa fengið góða samninga

Gazprom er stærsti gasframleiðandi veraldar, framleiddi um 20% alls gass í heiminum árið 2004. Og Úkraína hefur verið háð gasinu sem berst um leiðslur Gazprom til landsins, um 30% alls gass sem notað er í Úkraínu hafa komið frá Gazprom.

Úkraínumenn framleiða sjálfir aðeins um 22% þess gass sem þeir þurfa, mest kemur hins vegar frá Túrkmenistan, eða um 40%. En Gazprom á hins vegar allar gasleiðslur í Túrkmenistan, Úkraínumenn eru af þeim sökum í enn þrengri stöðu en ella.

Staðreyndin er á hinn bóginn sú að Úkraínumenn hafa notið góðra kjara hjá Gazprom, þeir hafa aðeins þurft að greiða 50 dollara fyrir hverja 1.000 rúmmetra af gasi. Kröfur Rússa gera ráð fyrir að gasverðið fari í 230 dollara á 1.000 rúmmetra en færa má rök fyrir því að þar sé um eðlilegt verð að ræða því að meðaltalsverð sem Evrópusambandsríkin borga er 240 dollarar á 1.000 rúmmetrana.

En séu hin efnahagslegu rök hækkunar augljós og eðlileg þá virðast hinir pólitísku þættir einnig blasa við í ljósi þess hversu yfirstjórn Gazprom er tengd Vladímír Pútín Rússlandsforseta tryggðaböndum. Er haft eftir ónafngreindum fulltrúa Gazprom í rússneskri útgáfu Newsweek að það hafi ekki verið ákvörðun fyrirtækisins að hækka gasverð til Úkraínu svona hratt og svona mikið, sú ákvörðun hafi verið tekin annars staðar; þ.e. af valdhöfum í Kreml.

Og ljóst er að stjórnin í Úkraínu velkist ekki í neinum vafa um að nú sé verið að refsa henni fyrir að horfa til vesturs. Benda Úkraínumenn á að önnur ríki sem tilheyra áhrifasvæði Rússlands og ekki hafa verið með uppsteyt, fá gasið áfram á lágu verði, t.a.m. Hvít-Rússar sem lært hafa sína lexíu og halda sig á mottunni.

Selur Gazprom Hvít-Rússum gasið fyrir 20% af verðinu sem fyrirtækið vill að Úkraínumenn greiði, nýlegur samningur gerir ráð fyrir að þeir borgi 47 dollara fyrir 1.000 rúmmetrana. Og Armenar og Georgíumenn greiða um 110 dollara.

Úkraínsk stjórnvöld hafa lýst sig viljug til að greiða hærra verð fyrir gasið en vilja að heildarhækkunin komi til framkvæmda á nokkrum árum. Svo mikil hækkun í einu lagi geti sligað ríkiskassann. Munu þeir hafa hafnað tilboði sem barst frá Moskvu skömmu áður en samningsfrestur rann út og fól í sér að þeir fengju þriggja mánaða aðlögunartíma; þ.e. byrjuðu ekki að borga uppsett verð fyrr en að þremur mánuðum liðnum.

Græðir Jústsjenkó á deilunni?

Rússneskir fréttaskýrendur segja reyndina þá að það séu úkraínskir ráðamenn sem hafi ákveðið að efna til þessa stríðs. Þannig segir Sergei Markov, pólitískur ráðgjafi sem tengsl hefur við Moskvu-stjórn, að Viktor Jústsjenkó, forseti Úkraínu, hafi talið að það myndi styrkja stöðu hans í aðdraganda þingkosninga í mars að fara í hart með þetta mál.

"Þessi deila er afar heppileg fyrir Jústsjenkó því að færu þingkosningar fram við eðlilegar aðstæður þá myndi hann tapa þeim," sagði Markov. "Kosningastjórar hans bjuggu til stefnu sem byggist á því að hafna samningum, neita að sættast á málamiðlun þannig að Gazprom yrði nauðbeygt til að skrúfa fyrir gasið sem síðan hefði í för með sér and-rússneska móðursýki [í Úkraínu]," sagði hann ennfremur.

Nokkur Evrópuríki sögðu í gærmorgun, að gas til þeirra, sem kemur frá Rússlandi um Úkraínu, hefði dregist saman um 40% í kjölfar aðgerða Gazprom á nýársdag. Víktor Kremenjúk, annar rússneskur fréttaskýrandi, sagði þó litla hættu á að þetta kæmi niður á Úkraínu. "Evrópa mun hafa samúð með vesalings Úkraínumönnunum. Í Austur-Evrópu, í Eystrasaltsríkjunum og í Póllandi hefur alltaf verið rík andúð gegn Rússlandi," sagði hann.