London. AFP. | Frestur til að vitja lottóvinnings upp á rúman milljarð íslenskra króna rann út í Bretlandi í gær án þess að nokkur gæfi sig fram. Um er að ræða hæsta ósótta vinninginn í breska lottóinu frá upphafi.
Vinningsmiðinn var seldur í Doncaster 6. júlí síðastliðinn en 180 dagar mega líða áður en honum er framvísað. Rann fresturinn út klukkan hálffimm í gærdag og bendir því flest til, að miðinn hafi glatast. Í gær var vinningshafinn búinn að tapa 13 millj. kr. í einum saman vöxtum af upphæðinni.
Talsmaður breska lottósins sagði í gær, að vinningsféð yrði sett í sérstakan sjóð hjá fyrirtækinu en hann er notaður til að styrkja ýmis góð málefni.