SJÓNVARPIÐ hefur í kvöld sýningar á splunkunýrri tíu þátta syrpu úr breska sakamálaflokknum Njósnadeildinni ( Spooks ). Í þáttunum, sem hafa hlotið mjög góðar viðtökur hér á landi, er sagt frá ævintýrum liðsmanna í úrvalssveit innan bresku leyniþjónustunnar, MI5, sem glímir meðal annars við skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverkamenn. Nokkur mannaskipti hafa orðið í liðinu og sumir hafa safnast til feðra sinna en nýtt fólk kemur í staðinn til að berjast við bófana.
Meðal leikenda eru Peter Firth, Rupert Penry-Jones, Anna Chancellor, Nicola Walker og Raza Jaffrey.