Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Á Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi er á deild A3 rekin reykleysismiðstöð. Henni stjórnar Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Á Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi er á deild A3 rekin reykleysismiðstöð. Henni stjórnar Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur.

"Ástæðan fyrir stofnun þessarar deildar er að við viljum reyna að auka meðferðarúrræði þeirra einstaklinga sem reykja en vilja hætta því," segir Rósa.

"Við erum ekki með námskeið, hjá okkur er um að ræða einstaklingsmeðferð sem sérstaklega er hugsuð fyrir skjólstæðinga spítalans. Einkum með þarfir langveikra í huga. Meðferðin er í formi einstaklingsviðtala og eftirfylgdar sem stendur í ár eða lengur, eftir þörfum viðkomandi. Með þessu erum við að svara kalli sem berst okkur frá sjúklingum sem hafa greinst með t.d. reykingatengdan sjúkdóm. Meðferðin byrjar á samtölum og fyrr eða síðar hættir sjúklingurinn að reykja og við fylgjum honum svo eftir í því ferli.

Hugsunin er líka sú að aðstoða sjúkling þannig að honum versni ekki og hann þurfi síður á endurinnlögn að halda."

Hvað notið þið af þeim hjálparmeðulum sem í boði eru?

"Ég ráðlegg fólki að skoða viðurkennda lyfjameðferð við nikótínfíkn og hún er töluvert mikið notuð hjá skjólstæðingum mínum, enda er þetta oft fólk sem hefur reykt lengi og þarf hjálp til að breyta sínum lífsstíl.

Mín vinna er líka sú að samhæfa vinnubrögð í reykleysismeðferð á öðrum deildum sjúkrahússins og styrkja samvinnu heilbrigðisstétta sem fást við að aðstoða fólk sem vill hætta að reykja."

Kemur til greina að þið farið að standa fyrir námskeiðum?

"Nei, ekki eins og gert úti í bæ. Þess má hins vegar geta að fjölskylda sjúklingsins sem er að hætta að reykja getur fengið meðferð hér og stuðning til að hætta líka. Óbeinar reykingar geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinginn."