— Morgunblaðið/RAX
Hvar er lækurinn og vinir umhverfisins? ÞAÐ eru heldur nöturlegar fréttir sem berast úr höfuðborginni nú rétt fyrir áramót. R-listinn er búinn að týna læknum sem rennur í Tjörnina, læknum sem er undirstaða fjölbreytts fuglalífs í hjarta borgarinnar.

Hvar er lækurinn og vinir umhverfisins?

ÞAÐ eru heldur nöturlegar fréttir sem berast úr höfuðborginni nú rétt fyrir áramót. R-listinn er búinn að týna læknum sem rennur í Tjörnina, læknum sem er undirstaða fjölbreytts fuglalífs í hjarta borgarinnar.

Þar sem ég veit að Ísland hefur að geyma einvalalið umhverfissinna sem ávallt er reiðubúið að leggja land undir fót og gæta hagsmuna gæsa og annarra náttúrufyrirbrigða sem lifa fjarri höfuðborginni þá óttast ég eigi. Ég trúi ekki öðru en að þetta einvalalið rói, vaði eða gangi á ís út í Tjarnahólmann allt eftir tíðarfari og reisi þar nokkra íslenska fána, öndum, gæsum og öðru því náttúrulífi sem þar þrífst til stuðnings. Einnig vil ég trúa því að þeir sem báru hag tjarnarinnar sem mest fyrir brjósti þegar ráðhúsið var byggt gangi nú í endurnýjun lífdaga og hjálpi til við að finna lækinn sem týndur er.

Nú þarf ekki að fara langt til að standa vörð um náttúruna. Stöndum vörð um Vatnsmýrina og þar með fjölskrúðugt dýralíf á Tjörninni í borg allra landsmanna, Reykjavík.

Kveðja,

Jón Sigurðsson,

Blönduósi.

Skemmdarverk í kirkjugörðum

ÉG vil koma á framfæri ljótri sögu um skemmdarverk í kirkjugarði. Um jólin var unnið skemmdarverk á leiði lítils barns í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Þar var tekin af leiðinu stór, þung englastytta af leiði barnabarns míns. Það eru allir miður sín vegna þessa, ekki síst foreldrar barnsins, þetta er mikið tilfinningamál í fjölskyldunni. Hvernig dettur fólki í hug að gera svona og hvað er að hjá fólki sem gerir svona? Ég vil vekja fólk til umhugsunar um að gera svona ekki og hvet ég þá sem þetta gerðu að koma styttunni aftur á sinn stað. Þetta skemmdi ansi mikið jólin hjá foreldrum barnsins.

Sorgmædd amma.

Bíllyklar fundust við Klukkuberg

BÍLLYKLAR, merktir RENAULT, ásamt tveimur áföstum húslyklum, fundust á jóladag á bílaplani fyrir utan Klukkuberg 11- 41 í Hafnarfirði. Upplýsingar í síma 8240440.

Bíllyklar týndust í Kópavogi

BÍLLYKLAR týndust 30. desember á leiðinni frá Félagsheimili eldri borgara í Hamraborg að Kópavogskirkju. Skilvís finnandi hafi samband í síma 5540618.

Kvenmannsveski í óskilum

Kvenmannsveski fannst í Kirkjugarðinum í Fossvogi á aðfangadag. Upplýsingar í síma 5852700.