[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hefur sýnt sig að því betur sem fólk undirbýr sig áður en það hættir að reykja, því betri verður árangurinn. Guðrún Guðlaugsdóttir kynnti sér námskeið og aðstoð sem í boði er til að auðvelda fólki að hætta reykingum. Stundum er öllum brögðum beitt.

Það hefur sýnt sig að því betur sem fólk undirbýr sig áður en það hættir

að reykja, því betri verður árangurinn. Guðrún Guðlaugsdóttir kynnti sér námskeið og aðstoð sem í boði er til að

auðvelda fólki að hætta reykingum. Stundum er öllum brögðum beitt.

Ekki auðvelt en þess virði

Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur um árabil staðið fyrir námskeiðum í húsnæði sínu við Skógarhlíð fyrir þá sem vilja hætta að reykja.

Halla Grétarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur umsjón með þessum námskeiðum.

"Á nýbyrjuðu ári hyggjumst við vera með okkar fyrsta námskeið nú 12. janúar," segir Halla.

En hvað er gert á þessum námskeiðum?

"Þar fá þátttakendur ráðgjöf og fræðslu til undirbúnings þess að hætta að reykja. Það hefur sýnt sig að því betri sem undirbúningurinn er því betri verður árangurinn. Fólk fær fræðslu og er búið undir það sem er í vændum fyrstu dagana eftir að það hættir - það eru fyrstu skrefin til þess að lifa reyklausu lífi."

Hverju má fólk búast við fyrstu dagana?

"Fyrstu dagarnir geta oft verið erfiðir. Þá verður fólk að kljást við fráhvarfseinkenni sem lýsa sér fyrst og fremst í sterkri löngun til að reykja, oft á fólk líka við svefnerfiðleika að etja, það hóstar mikið og fær einkenni frá meltingarvegi. Fram koma erfiðleikar við að einbeita sér og fólk verður miklu þreyttara en það á ella vanda til og pirraðra."

Hvað er til ráða við þessum kvillum?

"Það skiptir mestu máli að átta sig á að þetta er tímabundið ástand. Mikilvægt er að huga að þeim ávinningi sem fylgir því að hætta að reykja. Fyrst skal nefna heilsufarslegan ávinning, í annan stað fjárhagslegan ávinning og loks fær fólk frelsi frá fíkn."

Hvaða sjúkdómar eru það sem sækja þá helst heim sem reykja?

"Margvíslegir lungnasjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar og krabbamein. Ef fólk hættir að reykja fyrir miðjan aldur minnkar það líkur á reykingatengdum sjúkdómum um 90%. Góðu fréttirnar eru sem sagt að það virkar að hætta að reykja.

Fæstir segja að það sé auðvelt að hætta að reykja en allir segja að það sé þess virði."

Notið þið nikótínefni á námskeiðum ykkar?

"Á námskeiðunum fá allir einstaklingsbundna ráðgjöf varðandi notkun nikótínlyfja. Það er einstaklingsbundið hvort það hentar að nota slík lyf. Fólk sem er metið með sterka fíkn og reykir mikið hefur helst gagn af nikótínlyfjum. Ávinningur þess að hætta að reykja er miklu meiri en tímabundin notkun nikótínlyfja skapar. Ég hef fylgst með notkun slíkra lyfja hjá þátttakendum og hef ekki orðið vör við að fólk eigi erfiðleikum með að hætta að nota þau. Rannsóknir sýna að æskilegt er að leita sér faglegrar aðstoðar þegar hætt er að reykja og að notkun nikótínlyfja eykur líkur á að reykbindindið skili árangri."

Eru námskeiðin hjá ykkur vel sótt?

"Já, við höfum pláss fyrir 12 einstaklinga á hverju námskeiði og vorum með 5 námskeið á síðasta ári og hugsum okkur að hafa a.m.k. jafn mörg á nýju ári. Það hefur mikið að segja að vera tilbúinn að hætta að reykja áður en inn á námskeiðið kemur."

Halla sér alveg um fræðslu og ráðgjöf á námskeiðum Krabbameinsfélags Reykjavíkur en hver er bakgrunnur hennar?

"Ég er hjúkrunarfræðingur og hef sótt námskeið og ráðstefnur til að læra um meðferð til reykleysisins. Það er skortur á fagfólki til þess að sinna svona námskeiðum, einnig skortir tilfinnanlega úrræði fyrir ungt fólk sem vill hætta að reykja."

Hvað er nýtt á þessum vettvangi?

"Margt spennandi er að gerast í þessum efnum, aukin aðstoð til að hætta að reykja er á vefsíðum. Þess má geta að nú í janúar er væntanlegur bæklingur frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur með leiðbeiningum fyrir alla þá sem hyggjast hætta að reykja."

Möguleg fráhvarfseinkenni nikótíns og úrræði vegna þeirra

Margir byrja aftur að reykja af því að þeim finnst þeir ekki ráða við fráhvarfseinkennin. Fyrstu dagarnir eru kannski ekki skemmtilegir en einkennin eru eðlileg merki um að líkami þinn er að jafna sig. Algengustu fráhvarfseinkennin eru:

Löngun Áköf löngun til að reykja sem orsakast af því að heilann vantar nikótínskammtinn sinn.

Löngunin stendur oftast yfir í tvær til þrjár mínútur. Úr þessum einkennum dregur á um þremur vikum. Gott er að finna eitthvað til að bægja athyglinni frá lönguninni meðan á henni stendur, nota nikótín eða nikótínlaus lyf, anda nokkrum sinnum rólega og djúpt og/eða drekka glas af vatni.

Hósti, munnþurrkur Lungun eru að hreinsa burtu tjöru og önnur óhreinindi sem reykingarnar hafa valdið.

Hóstinn er verstur í upphafi og minnkar með tímanum. Heitir drykkir geta hjálpað og mundu að þetta er merki um að lungun eru að jafna sig.

Aukin matarlyst Þú gætir fundið fyrir mikilli matarlyst vegna breytinga á efnaskiptum líkamans og þeirri staðreynd að matur bragðast betur þegar þú ert hætt/ur að reykja.

Gættu þess að eiga holla staðgengla fyrir sígarettuna, s.s. ávöxt, grænmeti og sykurlaust tyggigúmmí. Að drekka vel af vatni hjálpar einnig.

Breyting á meltingu Þú gætir fengið hægðatregðu eða niðurgang.

Þetta jafnar sig fljótt. Drekktu vel af vatni og ef þú færð hægðatregðu reyndu þá að auka neyslu trefja og borða meira af ávöxtum og grænmeti.

Svefnerfiðleikar Erfiðleikar með svefn eða að halda sér vakandi. Þetta jafnar sig á tveimur til þremur vikum. Reyndu að hreyfa þig meira og fá þér ferskt loft, og draga úr te- og kaffidrykkju.

Svimatilfinning Þetta gerist þegar magn kolsýrlings (CO) í blóðinu minnkar og súrefnisflutningur til heilans eykst. Sviminn líður hjá á nokkrum dögum.

Geðsveiflur, einbeitingarskortur, pirringur.

Öll þessi einkenni er hægt að rekja til þess umróts sem á sér stað þegar ávaninn að reykja er lagður af. Þetta stafar m.a. af því að þurfa að fást við tilfinningar þínar án þess að kveikja í sígarettu.

Reyndu að finna leið til að takast á við líðan þína. Varaðu fjölskyldu þína og vini við og leitaðu eftir stuðningi þeirra, en láttu þau ekki telja þig á að fá þér sígarettu!

Margir byrja aftur að reykja af því að þeim finnst þeir ekki ráða við fráhvarfseinkennin. Fyrstu dagarnir eru kannski ekki skemmtilegir en einkennin eru eðlileg merki um að líkami þinn er að jafna sig.

Ef þú vilt ná árangri, þarft þú að læra nýjar venjur og bjargráð. Vertu góð/ur við sjálfa/n þig og ekki gera þér erfiðara fyrir en þörf er á.

Nikótín eða nikótínlaus lyf geta hjálpað þér að takast á við fráhvarfseinkennin og venjast því að reykja ekki. Hjá símaráðgjöfinni, Ráðgjöf í reykbindindi, getur þú fengið leiðbeiningar um hvaða vörur henta þér. Þú getur einnig haft samband við heilsugæslustöðina þína, spurt lækni, hjúkrunarfræðing eða lyfjafræðing.

Að hætta að reykja með aðstoð netsins

Enn sem komið er ekki til íslensk vefsíða sem býður upp á aðstoð til að hætta að reykja, en margar erlendar síður bjóða upp á slíka aðstoð. Á eftirfarandi vefsíðum má nálgast ýmsan fróðleik um tóbaksvarnir og fá aðstoð til að hætta að reykja:

www.givingupsmoking.co.uk
www. quitnet.com
www. stop-tabac.ch
www.ragnarok.se
www. ashline.org
www. cancer.ca/tobacco
www. lungusa.org/tobacco
www. ragnarok.se síða fyrir unglinga

Höf.: Guðrún Guðlaugsdóttir