Þrítugsafmæli Rapunzel var haldið með pompi og pragt. Hippastemningin sveif yfir gestum, enda var fyrirtækið stofnað árið 1975.
Þrítugsafmæli Rapunzel var haldið með pompi og pragt. Hippastemningin sveif yfir gestum, enda var fyrirtækið stofnað árið 1975.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirtækið Rapunzel í smábænum Legau í Suður-Þýskalandi hélt upp á 30 ára afmæli sitt í árslok. Fyrirtækið var stofnað árið 1975 og var með þær hugsjónir að framleiða hágæða matvæli úr lífrænt ræktuðu hráefni, segir Rúnar Sigurkarlsson.

Fyrirtækið Rapunzel í smábænum Legau í Suður-Þýskalandi hélt upp á 30 ára afmæli sitt í árslok. Fyrirtækið var stofnað árið 1975 og var með þær hugsjónir að framleiða hágæða matvæli úr lífrænt ræktuðu hráefni, segir Rúnar Sigurkarlsson. Það voru ung hjón rétt um tvítugt, Jennifer Vermeulen og Joseph Wilhelm, sem stofnuðu það og var fyrsta framleiðsla þeirra múslí. Þau byrjuðu mjög smátt og keyptu lífrænt hráefni af bændum í nágrenninu. Strax í byrjun fundu þau fyrir því að ekki var hægt að fá allt lífrænt, eins og til dæmis fíkjur. Þá tók Joseph ferðatöskuna og hafði með sér heimilisfang bónda í Tyrklandi sem ræktaði fíkjur, leitaði hann uppi og sannfærði hann um ágæti lífrænnar ræktunar. Bóndinn var til í að læra lífræna ræktun og Joseph sendi mann á staðinn til að kenna honum. Þetta var algert brautryðjendastarf sem hélt áfram og í dag eru í Tyrklandi 450 bændur í náinni samvinnu við Rapunzel, sem kaupir alla þeirra framleiðslu á yfirmarkaðsverði. Það kallast Tyrklandsverkefni Rapunzel og eru þeir einnig með útibú þar. Vörur sem koma þaðan eru m.a. fræ, baunir, þurrkaðir ávextir, hnetur o.fl. Allt frá upphafi hefur Rapunzel verið eingöngu með lífrænt ræktaðar vörur og eru þeir með mjög strangt gæðaeftirlit, auk þess sem vörur þeirra eru allar vottaðar lífrænar af óháðum vottunaraðila.

Fáum árum eftir að framleiðsla þeirra hófst fóru þau að flytja inn vörur frá þriðja heiminum. Þá ákváðu þau að allt sem þau keyptu þaðan yrði "fair trade"-vottað. Þar hófst sama vinnan og áður í Tyrklandi að kenna lífræna ræktun og veita þann stuðning sem þurfti til að koma henni á laggirnar. Í samvinnu við þýsku þróunarhjálpina eru þau með náin tengsl við framleiðendur í þriðja heiminum. Kókos frá Sri Lanka, kakó frá Dóminíska lýðveldinu, hrásykur frá Kosta Ríka og Bólivíu, quinoa-korn og brasilíuhnetur frá Bólivíu og kaffi frá Suður-Ameríku eru nokkur dæmi. Á öllum þessum stöðum gilda strangar reglur varðandi lífrænu ræktunina og einnig varðandi velferð og tekjur bændanna. Þar eru börn ekki notuð í vinnu og hluti af hagnaði af sölu afurðanna fer í uppbyggingu á skólum eða öðru mikilvægu á viðkomandi svæði. Rapunzel eru því einnig frumkvöðlar í því að sameina lífræna ræktun og "fair trade".

Rapunzel hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og öll árin hefur ekki verið hvikað frá kröfunum um lífræna ræktun og heiðarleg viðskipti. Sömu lifandi hugsjónirnar og var byrjað með eru enn við lýði í fyrirtækinu og tilgangurinn er að bæta heiminn með fyrsta flokks lífrænum matvörum. Einkunnarorð eigandans Joseph Wilhelm eru: Ef margt fólk á mörgum stöðum í heiminum gerir góða hluti þá breytum við ásjónu heimsins.

Það eru ekki mörg fyrirtæki á þessu sviði sem hafa svo langa sögu og tengja þar að auki saman lífrænt og "fair trade". Það nýjasta hjá Rapunzel er að auka úrval sitt af vörum sem vottaðar eru með "demeter"-vottun, en það eru allra ströngustu kröfur í lífrænni ræktun í dag.

Við hjá Yggdrasli vorum á þessari afmælishátíð og þar voru aðilar m.a frá Sri Lanka og Tyrklandi og eru þessir aðilar sem við töluðum við mjög ánægðir með samvinnuna við Rapunzel. Á afmælishátíðinni hjá Rapunzel fengu nokkrir aðilar viðurkenningar fyrir vel unnin störf og fékk Yggdrasill viðurkenningu fyrir að vera besti fulltrúi á erlendri grund fyrir Rapunzel, en Rapunzel selur vörur sínar til 39 landa. Neytendur lífrænt ræktaðra vara frá Rapunzel eru fleiri á Íslandi en annars staðar í heiminum, miðað við mannfjölda. Á eftir Íslandi koma Lúxemborg og því næst Þýskaland.