Guðni Gunnarsson
Guðni Gunnarsson — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Rope yoga er heildrænt heilsuræktarkerfi sem leggur ekki bara áherslu á líkamann heldur líka á tilfinningar, sálarlíf og huga, segir Guðni Gunnarsson, leiðbeinandi. Hann hefur búið í Bandaríkjunum í fimmtán ár, mest allan tímann í Los Angeles.

Rope yoga er heildrænt heilsuræktarkerfi sem leggur ekki bara áherslu á líkamann heldur líka á tilfinningar, sálarlíf og huga, segir Guðni Gunnarsson, leiðbeinandi. Hann hefur búið í Bandaríkjunum í fimmtán ár, mest allan tímann í Los Angeles. Hann segist þar hafa unnið að því að þróa og útfæra rope yoga.

Guðni segist vinna með rope yoga í sjö skrefum og fellst á að útskýra þau í stuttu máli fyrir lesendum. "Fyrsta skrefið er athygli og það að vakna til vitundar um það hvar maður er staddur," segir hann. "Í því skrefi þarf maður að vakna til vitundar um það að hugsanir manns eru ekki maður sjálfur heldur samantekt af skoðunum og viðhorfum sem maður getur haft víða að og eru ekki alltaf réttar. Þegar maður áttar sig á þessu er maður vakandi," segir hann.

"Annað skrefið gengur út á það að taka ábyrgð á sinni tilvist. Það að taka ábyrgð á sinni tilvist og vita hvar maður er staddur er forsenda þess að maður getur haldið áfram." Hann segir að ábyrgðin feli í sér tvennt. Annars vegar sé ekki hægt að taka ábyrgð nema fyrirgefa sjálfum sér. Og hins vegar sé ekki hægt að fyrirgefa sjálfum sér nema taka ábyrgð. "Þegar maður er búinn að taka ábyrgð á sjálfum sér getur maður farið að velja viðbrögð; maður bregst þá ekki lengur við eins og hundur eða dýr. Val er vald og það er ekki hægt að velja ekki."

Þriðja skrefið er ásetningur eða áform. "Í því skrefi felst tilgangur lífsins. Við veljum okkur tilganginn sjálf. Án tilgangs getur enginn verið hamingjusamur. Maður getur ekki verið innblásinn án tilgangs. Tilgangurinn er í raun undirstaða hamingjunnar. Fjórða skrefið er trúfesta. Það merkilega við þessa tilveru er að við óttumst vegna þess að við treystum ekki sjálfum okkur. Þegar við förum að treysta okkur finnst okkur við vera verðug. Fimmta skrefið felst í því að leyfa sér framgang. "Við höfum oft lent í því að laða að okkur einhverja velmegun sem hefur farið frá okkur aftur, því okkur finnst við ekki eiga það skilið. Ekki fyrr en við lærum að treysta okkur sjálf og finnast við vera verðug leyfum við okkur að njóta velmegunar."

Sjötta skrefið er aukið innsæi. "Þegar maður er kominn á þetta stig er maður farinn að fylgjast með sínum hugsunum á hlutlausan hátt, sem vitni en ekki dómari. Þá getur maður hvatt sig á fætur aftur með umhyggju og kærleik, en ekki barið sjálfan sig eins og ofbeldisfullur níðingur. Og að lokum: sjöunda skrefið er þakklæti hjartans. Þegar viðkomandi manneskja er búin að tengja þakklætið hjartanu er hún uppljómuð, full komin, þ.e. komin til fulls."

Stuðlum að einingu

Guðni segist vera höfundur þessa kerfis frá upphafi til enda. Hann segir þetta ganga út á að rækta alla þætti okkar tilvistar. Hann segist vera með námskeið í húsakynnum verslunarinnar Maður lifandi helgina 6. til 8. janúar nk. Þar verður hugmyndafræðin og undirstöðuæfingar rope yoga kenndar, segir hann. "Æfingarnar ganga út á að kenna fólki að beita líkamanum og vinna frá kviðnum, kjarna líkamans."

Guðni segir að fleiri þúsund Íslendingar iðki rope yoga á degi hverjum. Allir geti iðkað það, á öllum aldri. Hann segir sömuleiðis að um fimmtíu útskrifaðir rope yoga-kennarar starfi á Íslandi. Hún sé kennd á öllum helstu líkamsræktarstöðvum víðs vegar um landið. Sjálfur segist hann hafa stundað rope yoga í um það bil 25 ár. Inntur eftir því hvort hann sé ekki þar með í góðu jafnvægi segir hann: "Það er í raun bannað að tala mikið um sjálfan sig í svona viðtölum. En þeir sem þekkja mig myndu segja að ég væri í góðu flæði." Þegar hann er beðinn um að útskýra þetta nánar segir hann að tilveran gangi út á flæði. Andstæðan við flæði sé viðnám, þ.e. þá heldur einstaklingurinn aftur af sér; er á bremsunni. "Ég bý við hugmyndina um þakklæti og að vita að allt sem hendir í lífi mínu er blessun en ekki böl. Allt er tækifæri en ekki vandamál. Ég bregst sáralítið við í dag, heldur er ég alltaf að velja viðbrögð mín. Þegar ég hef val þá hef ég vald."

Guðni segist að síðustu hafa sett fjölþætta verkefnabók á heimasíðu sína www.ropeyoga.is. Hún eigi að stuðla að því að fólk finni tilgang í lífinu á öflugri hátt en áður og að það setji sér ný og skilvirkari markmið. Bókin heitir Lífssýn og er hægt að niðurhala og prenta hana endurgjaldslaust.