Vísindamenn við Kaliforníuháskóla í San Diego segja að stórir skammtar af D-vítamíni geti minnkað líkurnar á algengustu tegundum krabbameins um allt að helming. Vísindamennirnir skoðuðu 63 eldri rannsóknir um málið og tóku eftir því að vítamínið getur...

Vísindamenn við Kaliforníuháskóla í San Diego segja að stórir skammtar af D-vítamíni geti minnkað líkurnar á algengustu tegundum krabbameins um allt að helming. Vísindamennirnir skoðuðu 63 eldri rannsóknir um málið og tóku eftir því að vítamínið getur m.a. minnkað líkur á brjósta-, eggjastokks- og ristilkrabbameini. Enn á þó eftir að framkvæma frekari rannsóknir til að fá endanlegar niðurstöður, að sögn vísindamanna. Þetta kemur fram í nýjasta hefti American Journal of Public Health .

Læknar fagna rannsókninni en taka henni með fyrirvara og segja hættu á því að of stórir skammtar af D-vítamíni geti skaðað nýru og lifur. Svokölluð náttúruleg gerð vítamínsins kallast D3, en hún myndast í húð manna við tilkomu útfjólublás sólarljóss. Finnst vítamínið þó einnig í ákveðnum tegundum fæðu, s.s. í feitum fiski, smjöri og í kjöti.

Samband vítamíns og krabbameins

Í rannsókninni var sambandið á milli magns D-vítamíns í blóði og hættunnar á krabbameini skoðað Þar kom m.a. fram að lífslíkur fólks af afrísk-karabísku bergi brotið sem greint hefur verið með brjósta-, ristil-, blöðruháls- og eggjastokkskrabbamein eru minni en hvítra. Af því drógu vísindamennirnir þær ályktanir að dekkri húð framleiddi minna af D-vítamíni en hvít.

Þá gaumgæfðu vísindamennirnir rannsóknir víðs vegar að úr heiminum sem gerðar voru á árunum 1966 til 2004. Segja þeir niðurstöðurnar sýna að D-vítamín sé fyrirbyggjandi gegn nokkrum gerðum krabbameins og ekki hægt að leiða mikilvægi þess hjá sér. En með því að taka 25 milligrömm af D-vítamíni daglega megi minnka líkurnar á ristilkrabbameini um helming og brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum um 30%.