Hagstætt útspil.
Norður | |
♠732 | |
♥ÁG3 | |
♦ÁK4 | |
♣ÁKG10 |
Suður | |
♠ÁD84 | |
♥K10 | |
♦G9872 | |
♣D6 |
Suður spilar sex grönd og fær hagstætt útspil - lítið hjarta.
Hvernig á að tryggja tólf slagi?
Eftir útkomuna duga fjórir slagir á tígul og þá má tryggja ef liturinn liggur ekki verr en 4-1. Rétta íferðin er að taka fyrst á ásinn, fara svo heim og spila níunni að blindum með þeirri áætlun að láta hana svífa yfir ef vestur fylgir smátt. Þannig fást alltaf fjórir slagir á litinn þótt D10xx sé á sömu hendi.
Norður | |
♠732 | |
♥ÁG3 | |
♦ÁK4 | |
♣ÁKG10 |
Vestur | Austur |
♠KG6 | ♠1095 |
♥7654 | ♥D982 |
♦D1063 | ♦5 |
♣94 | ♣87532 |
Suður | |
♠ÁD84 | |
♥K10 | |
♦G9872 | |
♣D6 |
Allt er þetta gott og blessað, en hins vegar þarf að huga að sambandinu á milli handanna líka. Ef sagnhafi sefur á verðinum og lætur hjartaþristinn úr borði í fyrsta slag mun drottningin kosta kónginn og þá kemur til með að vanta eina innkomu heima.
Skoðum málið: Tígull á ás í öðrum slag, heim á laufdrottningu og tígulníu spilað. Ef vestur fylgir smátt (sem er best) er vafasamt að láta níuna fara yfir. Og jafnvel þótt sagnhafi hitti á djúpsvíninguna neyðist hann til að svína í spaðanum.
Og lausnin er: Að stinga upp hjartagosa í fyrsta slag til að gulltryggja innkomu á hjarta síðar.