Skiptar skoðanir eru augljóslega um áhrif þess að heimill afgreiðslutími skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur var lengdur verulega fyrir fáeinum árum.

Skiptar skoðanir eru augljóslega um áhrif þess að heimill afgreiðslutími skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur var lengdur verulega fyrir fáeinum árum. Lögreglunni gengur greinilega betur að hafa stjórn á ástandinu í miðbænum um helgar þegar fólk streymir ekki lengur í stórum hópum út á göturnar upp úr klukkan þrjú. Ástandið, sem ríkti áður fyrr í miðbænum aðfaranætur laugardags og sunnudags, jaðraði við hrein skrílslæti og var borginni og borgurunum ekki til sóma.

Samkvæmt tölum lögreglunnar hefur ofbeldisbrotum í miðbænum fækkað eftir að afgreiðslutíminn var lengdur.

Veitingahúsaeigendur hafa hins vegar sagt frá því að lengingu afgreiðslutímans hafi fylgt meiri fíkniefnaneyzla. Frásagnir lækna á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Morgunblaðinu í gær benda líka til að svo sé.

Kristín Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri á slysadeildinni, bendir á að til að halda út í skemmtanalífinu heilu næturnar freistist fólk til að taka örvandi fíkniefni. Afleiðingarnar eru m.a. að á slysadeildina kemur fólk, sem er í verra ásigkomulagi vegna fíkniefnaneyzlu og er umhverfi sínu hættulegra. Læknar og hjúkrunarfólk fara ekki varhluta af því; árásum og ógnunum í þeirra garð hefur fjölgað. Slysadeildin býst nú til að efla öryggisráðstafanir sínar til að bregðast við þessu.

Í máli læknanna og Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar, kemur fram að margir séu nú farnir að líta á fíkniefni sem eðlilegan hluta af skemmtanalífinu. Það er að sjálfsögðu alveg fullkomlega skelfilegt, ef svo er. Ásgeir Karlsson talar um að "ólíklegasta fólk og úr öllum stéttum þjóðfélagsins" noti fíkniefni. Ef þetta er að hluta til afleiðing af breyttri skemmtanamenningu í kjölfar breytts afgreiðslutíma er ástæða til að staldra við. Það má hvergi slaka á í baráttunni við fíkniefnadjöfulinn.

Kristín Sigurðardóttir leggur til að skemmtistaðir verði flokkaðir og þeir látnir loka á mismunandi tímum. Þá spyr hún hvort ástæða geti verið til að selja ódýrara áfengi fyrir miðnætti til að ýta undir að fólk, sem vill skemmta sér, fari fyrr út og fyrr heim. Ásgeir Karlsson segir það sína skoðun að breyta mætti reglum þannig að sérstakir næturklúbbar, sem væru fjarri miðborginni, fengju að hafa opið lengur á nóttunni en afgreiðslutími annarra staða yrði styttur. Allt eru þetta tillögur, sem sjálfsagt er að ræða í því skyni að bæta ástandið í miðbænum.

"Fólk sem er að fara með börnin sín til að gefa öndunum á Tjörninni rekst kannski á útúrdrukkið og vansvefta fólk sem er á leiðinni heim eftir nóttina," segir Kristín Sigurðardóttir. "Er þetta það sem við Íslendingar viljum vera þekktir fyrir, djamm, sukk og svínarí?" Svarið við því hlýtur að vera nei. Markmiðið á að vera að draga úr fíkniefnaneyzlunni samfara skemmtanalífinu og ekki síður að gera miðborg Reykjavíkur að fjölskylduvænna, öruggara, snyrtilegra og meira aðlaðandi hverfi, þar sem er bæði gott að búa og koma.