Jóhanna Þráinsdóttir fæddist í Reykjavík 5. maí 1940. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. nóvember síðastliðinn og var útför hennar gerð 7. desember síðastliðinn, í kyrrþey að ósk hennar.
Það var árið 1999 að ég og Kristín móðir mín fluttum að Njálsgötu 5 þar sem Jóhanna bjó. Við gerðum okkur fljótlega grein fyrir því að við höfðum eignast góðan nágranna, sem er gulls ígildi. Dálítið sérstæður heimilisköttur Jóhönnu, sem við nefndum Þorkel Ágúst, styrkti mjög samkomulag og samstöðu í húsinu. Jóhanna var kona vináttunnar, enda stóð að henni sterkur vinakjarni. Á hverjum degi áttum við öll spjall saman og reyndist það okkur mjög uppbyggilegt þar eð Jóhanna var víðlesin og margfróð.
Þegar móðir mín andaðist árið 2002 reyndist Jóhanna mér mikill styrkur og samúð hennar var einlæg. Við þessi vegamót kveð ég Jóhönnu að sinni og votta syni hennar, vini mínum Jóhanni Gröndal, hugheila samúð mína. Við Keli sendum kveðjur frá Njálsgötu 5.
Helgi Ásgeirsson.