"Ef við viljum að börnin okkar fái holla næringu til þess að þeim líði betur, þau hafi meiri einbeitingu í námi og hæfileikar þeirra fái notið sín til fulls fer best á því að byrja á að breyta neyslumynstri fjölskyldunnar ef það er í óhollari kantinum - fyrirmyndin þarf að vera í lagi," segir Hildur Guðmundsdóttir, annar eigandi Yggdrasils.
* Leyfum börnunum að byrja snemma að taka þátt í eldhússtörfum og matargerð - þau elska að fá að vera með. Grænmeti sem þau hafa sjálf fengið að taka þátt í að útbúa vilja þau líka borða.
* Kennum þeim að drekka jurtate, tegundir eins og kamillu og fennel má gefa þeim frá nokkurra vikna aldri. Rauðrunnate er í sérstöku uppáhaldi, því það er bæði bragðgott og inniheldur mikið af góðum næringarefnum, m.a. járn og c-vítamín.
* Forðumst hvítan sykur. Það er nóg til af sætu sem er margfalt betri en hvítur sykur. Til dæmis þurrkaðir ávextir, óhreinsaður hrásykur (Rapadura) og rófusíróp.
* Forðumst gervisætuefni. Aspartam er óhollt fyrir alla, sérstaklega fyrir ung börn. Það er kemískt efni og líkamanum framandi og því mjög ónáttúrulegt. Þegar aspartam var fyrst sett á markað var bannað að gefa það börnum innan þriggja ára.
* Forðumst hvítt hveiti. Notum í staðinn vörur unnar úr heilkornamjöli. Ef barn er ekki vanið á afurðir úr hvítu hveiti vill það frekar borða afurðir úr heilu korni, en í hýði kornsins eru mikilvæg næringarefni eins og steinefni, járn og B-vítamín sem er svo nauðsynlegt fyrir taugakerfið.
* Forðumst mikið unnar matvörur sem innihalda mikið af ónáttúrulegum hjálparefnum.
* Lærum að lesa á umbúðir og lærum inn á vörur sem við getum treyst. Þá er gott að velja lífrænt ræktaðar vörur. Þær eru framleiddar eftir ströngum reglum þar sem bannað er að nota öll ónáttúruleg og óæskileg hjálparefni, bæði við ræktun hráefnanna og einnig í vinnslu á tilbúnum vörum. Lífrænt ræktaðar afurðir innihalda oftast meira af næringarefnum en aðrar vörur. - Mikilvægt er þó að athuga hvort varan hafi ekki örugglega viðurkennda vottun og sé rekjanleg til upprunans.
Ungbarnafæði - hollusta og hreinleiki í fyrirrúmi
Fæði fyrir ungbörn byrjar í raun og veru fyrir fæðinguna, jafnvel fyrir getnaðinn. Það hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu barnsins hvernig heilsa foreldranna er. Þess vegna er best af öllu að byrja snemma að huga að heilsunni og mataræðinu áður en barnið verður til í móðurkviði. Næst á eftir því kemur svo næring móðurinnar á meðgöngunni. Allt sem hún setur ofan í sig hefur áhrif á barnið. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að vanda sig. Rauðrófusafi er mjög góður járngjafi ef móðurina vantar járn á meðgöngunni. Eftir fæðinguna er móðurmjólkin besta næringin fyrir barnið fyrstu sex mánuðina. Þá er líka mikilvægt að móðirin lifi á hollu og næringarríku fæði. Borði reglulega og mikið af grænmeti, ávöxtum, hnetum og fræjum og grófu kornmeti. Best er þá að velja sem mest fæði sem er lífrænt ræktað og ekki unnið með óæskilegum hjálparefnum. Ásamt mjólkinni er gott að gefa barninu á pela milt jurtate. Fennelte minnkar gasmyndun hjá barninu og það fær síður loftverki. Kamillute er milt, róandi og einnig græðandi og minnkar líkur á sýkingum. Það er því gott að gefa barninu kamillute ef það er kvefað. Ef barnið er vanið á te snemma kann það að meta það og það er gott við þorsta.Þegar venja á barnið af móðurmjólkinni er það gert hægt og rólega og barninu gefnir þunnir grautar til að byrja með. Athugið að ekki má salta grautinn. Börn mega ekki fá salt fyrir eins árs aldur. Það er of mikið álag fyrir nýrun. Barnagrautarnir frá Holle eru allir unnir á mildan hátt til að viðhalda næringargildi kornsins. Þeir eru allir unnir úr lífrænt ræktuðu korni með demeter-gæðastimpil, en það eru allra ströngustu kröfur í lífrænni ræktun. Þeir innihalda allir járn sem er það járn sem er náttúrulega til staðar í korninu. Til að auðvelda líkamanum upptöku járnsins er gott að gefa barninu c-vítamín með grautunum. Mjög gott náttúrulegt c-vítamín er í sítrónum og þarf aðeins nokkra dropa. Einnig er gott að nota sólberjasafa, en sólberin innihalda bæði járn og c-vítamín.
Mikilvæg regla þegar börn byrja að fá fasta fæðu er að gefa aldrei nema eina nýja fæðutegund í einu og enga aðra í fimm daga í röð. Þetta er mikilvægt til að geta áttað sig á hvort þau hafi ofnæmi fyrir viðkomandi tegund. Best er að byrja á rísgraut, hann er bæði auðmeltanlegur og glútenlaus, sum börn fá harðar hægðir af honum og þá er gott að skipta yfir í hafragraut sem mýkir hægðir. Samhliða því að gefa barninu grauta er gott að gefa ávaxta- og grænmetissafa. Gott er þá að eiga góða grænmetispressu og pressa sjálfur. Mikilvægt er að velja afurðir sem eru lífrænt ræktaðar og því lausar við leifar af skordýraeitri og öðrum óæskilegum efnum. Safarnir þurfa að vera útþynntir. Bragðlaukar barnsins eru miklu næmari en okkar. Við þurfum líka að vanda okkur og fara varlega þegar við erum að kynna nýjar bragðtegundir. Mikilvægt er að barnið fúlsi ekki við mikilvægum mat eins og t.d. gulrótum. Til að gera matinn girnilegri er líka hægt að bæta í hann smávegis af rjóma, sem mildar og mýkir allt bragð. Jafnvel börn sem þola ekki venjulega kúamjólk geta þolað rjóma og smjör mjög vel. Síðan má fara að gefa ávaxta- og grænmetismauk. Best er að gera það sjálfur úr lífrænt ræktuðu hráefni, en annars er hægt að fá góðan barnamat í krukkum úr lífrænt ræktuðu hráefni. Það mikilvægasta í ungbarnafæði er að vera með næringarríka og hreina fæðu. Hana er best að fá úr afurðum sem eru vottaðar lífrænt ræktaðar.
Hildur verður með námskeið í janúar um holla næringu fyrir börn. Upplýsingar um námskeiðin má nálgast á heimasíðu Yggdrasils.