Hilmar Gunnarsson og Hafsteinn Daníelsson, eigendur Veggsports.
Hilmar Gunnarsson og Hafsteinn Daníelsson, eigendur Veggsports. — Morgunblaðið/Þorkell
Hópeinkaþjálfari. Það hljómar nú svolítið þversagnakennt, en engu að síður er boðið upp á slíkan þjálfara hjá líkamsræktarstöðinni Veggsporti. Þetta þýðir að átta manns geta æft saman undir leiðsögn eins þjálfara.

Hópeinkaþjálfari. Það hljómar nú svolítið þversagnakennt, en engu að síður er boðið upp á slíkan þjálfara hjá líkamsræktarstöðinni Veggsporti. Þetta þýðir að átta manns geta æft saman undir leiðsögn eins þjálfara. Stöðin hóf að bjóða upp á þennan kost í byrjun síðasta árs, segir Hafsteinn Daníelsson, annar af eigendum stöðvarinnar.

Hann segir þetta hafa gefist vel og sé vinsælt. Meðal annars vegna þess að þetta sé ódýrari kostur en að æfa einn með einum þjálfara. En kostirnir séu fleiri: Þeir sem myndi hópinn nái oft vel saman og geti því stutt hver annan í viðleitni sinni til að komast í betra form. Hann segir að hópur sem byrjaði að æfa undir leiðsögn hópeinkaþjálfara sl. haust sé ánægður og ætli að halda áfram eftir áramót. "Þá ætlum við að bæta við fleiri slíkum hópum," segir Hafsteinn. "Hóparnir æfa ekki bara í tækjasalnum heldur fer einkaþjálfarinn með liðið í skvass, hjólatíma og eróbikktíma," nefnir hann sem dæmi. "Auk þess er farið yfir mataræðið og annað tekið í gegn."

Aðsóknin eykst í janúar

Hafsteinn segir að Veggsport sé ein af elstu líkamsræktarstöðvum landsins, en hún var opnuð í mars 1987. Þar er tækjasalur og boðið upp líkamsræktartíma; spinning, eróbikk og þrektíma. Einnig er hægt að fara í skvass og körfubolta. Þá er golfhermir á staðnum og hægt að velja um níu erlenda golfvelli.

Hafsteinn segir að aðsóknin að stöðinni sé nokkuð jöfn allan ársins hring. "Þetta er ekki lengur eins og í gamla daga, en þá lá við að maður gæti lokað á sumrin. Þá voru meiri árstíðarsveiflur. Nú er hins vegar góð aðsókn yfir sumarið og reyndar allan ársins hring." Hann segir þó aðspurður að aðsóknin aukist alltaf aðeins í janúar. Ástæðuna megi m.a. rekja til umtalsins sem þá verði um líkamsrækt og heilsu eftir jólahátíðarnar. "Fólk borðar oft vel yfir jólin og bætir á sig kílóum. Það þýðir spark í rassinn hjá sumum."

Aðspurður segir hann að skvass sé mjög vinsælt. "Þetta er þrumugóð líkamsrækt," segir hann. "Það er svo margt sem þú færð út úr henni, t.d. rekur keppnin þig áfram: þú vilt ekki tapa fyrir andstæðingi þínum - og þú færð gott þol og snerpu, eftir snöggu sprettina. Ég gæti trúað að um sjö hundruð manns spili skvass að staðaldri," segir hann að síðustu.