Líkamsþjálfun er mörgum ofarlega í huga eftir lystisemdir stórhátíðanna. Arna Schram athugaði nokkra af þeim fjölmörgu möguleikum sem í boði eru í líkamsrækt; hópþjálfun, jóga, átakshópa, vaxtarmótun og kaðlajóga, svo eitthvað sé nefnt.
"Við erum svolítið eins og ofdekruð börn"
Drekka vatn og hugsa grönn," er eitt af þekktum hollráðum Báru Magnúsdóttur jazzballettkennara og heilsuráðgjafa en hún hefur um árabil haldið svonefnd TT-námskeið, í skólanum sínum við Lágmúla. TT þýðir: frá toppi til táar, og er markmið þeirra sem fara á slík námskeið að grennast og komast í betra form. Hvert námskeið stendur yfir í níu vikur og þau eru opin konum á öllum aldri.Að þessu sinni býður Bára hins vegar upp á þá nýjung að vera með sérstaka átakshópa fyrir ungar stúlkur á aldrinum sextán til tuttugu ára. Einnig er hún með sérstaka átakshópa fyrir ungar konur frá tvítugu til þrítugs. Áherslurnar á þessum námskeiðum eru aðeins öðruvísi en á öðrum, t.d. er tónlistin nær tónlistarsmekk unga fólksins og í stað þess að fræðast um tísku, er fjallað um umhirðu húðarinnar, svo dæmi séu nefnd. Markmiðið er hins vegar það sama; að grennast og komast í form.
Neysluvenjurnar hafa breyst
Bára segir aðspurð að ungt fólk nú til dags sé verr á sig komið líkamlega en fyrir nokkrum áratugum. "Við sjáum það berum augum og allar tölur benda líka til þess," segir hún. Þegar hún er spurð um mögulegar skýringar, stendur ekki á svari: "Neysluvenjurnar hafa breyst. Við höfum of mikil fjárráð og erum svolítið eins og ofdekruð börn. Við kaupum nammi og kók mörgum sinnum í viku af því að við höfum efni á því. Áður var slíkur munaður bara keyptur til spari. Við kunnum ekki að fara með þessa velmegun."Bára leggur áherslu á að það eigi ekki að vera neitt feimnismál þótt t.d. ung stúlka fitni. "Hún á þá að segja: ég þarf að drífa mig og gera eitthvað í þessu!" Bára segir að sumir fái minnimáttarkennd ef þeir fitna. En það sé ekki réttur hugsunarháttur: allir geti fitnað. Það sé í raun ekkert eðlilegra en að fitna í því þjóðfélagi sem við búum við í dag. "En ef við byrjum að fitna höldum við því áfram ef ekki er gripið í taumana," segir hún.
En hvað er hægt að gera? "Í fyrsta lagi er hægt að vera glaður og ánægður yfir því að við skulum búa hérna megin jarðar og að við höfum það svona gott. En þrátt fyrir það ætlum við ekki að drekka gos og borða nammi á hverjum degi. Ekki vegna þess að við megum það ekki heldur vegna þess að við viljum það ekki! Auk þess ætlum við að hætta að vera fórnarlömb og hugsa: hvers vegna fitna ég en ekki vinkona mín? Svarið er nefnilega: Þú fitnar vegna þess sem þú lætur í munninn. Það er aðeins ein örugg leið til að fitna en það er að innbyrða í marga daga í röð fleiri orkueiningar en við komumst yfir að brenna."
Ábyrgðin er hjá hverjum og einum
Bára segir að á námskeiðunum sé farið yfir þessi atriði. "Fólk þarf að fræðast um þetta eins og allt annað. Ef þú skilur hvernig þú þyngist þá veistu hvernig á að léttast." Hún segir að gamla aðferðin: að svelta sig og grennast, dugi skammt, ef fólk veit ekki grundvallaratriðin. Í slíkum tilvikum geti allt farið í sama farið aftur - að einhverjum tíma liðnum. "Hver einstaklingur verður að finna hjá sjálfum sér að orsök og afleiðing ræður ferðinni. Ábyrgðin hvílir á endanum hjá hverjum og einum."Námskeiðin hjá Báru ganga líka út á hreyfingu, enda segir hún að líkamsrækt og fræðsla haldist í hendur. Hún segir að æfingar auki ekki matarlystina, eins og stundum er haldið fram. "Þvert á móti, þegar þungur einstaklingur byrjar að æfa fer líkaminn að starfa eðlilega. Þú ert nefnilega aldrei eins svöng og þegar þú ert að þyngjast. Þá er líkaminn stöðugt að kalla á mat. Um leið og þú byrjar að þjálfa missir þú þessa matarfíkn," segir Bára að síðustu.