Frá Alberti Jensen: "HUGLEYSI og sýndarmennska gætu verið systkin, svo lík sem þau eru. Báðir þessir eiginleikar eru tengdir systrunum græðgi og grimmd en þær eru verstu og mestu áhrifavaldar á skapgerð mannsins. Svo aðlaðandi förunautum er heimskan sjaldan fjarri."

HUGLEYSI og sýndarmennska gætu verið systkin, svo lík sem þau eru. Báðir þessir eiginleikar eru tengdir systrunum græðgi og grimmd en þær eru verstu og mestu áhrifavaldar á skapgerð mannsins. Svo aðlaðandi förunautum er heimskan sjaldan fjarri. Horfið og þið munið hvarvetna sjá áhrif þessara úrkynjunareiginleika mannsins. Ástæðan er að fyrrnefndir skaðvaldar hafa náð yfirhöndinni í lífi hans. Hann kýs að hygla þeim en bægja því betra frá. Á sama tíma og nátúrulegir umhverfisþættir eru að hrynja um alla veröldina, af hans völdum, stingur hann höfði sínu í sand. Það gerir líka stóri fuglinn með litla hausinn. Norðurlandaþjóðirnar, sem urðu fyrstar til að verða boðberar lýðræðis, eru farnar að heykjast á þeirri þjóðfélagsmyndan. Græðgin og eitt afsprengja hennar, sundurlyndið, varða veg misréttis og auðs til fárra. Undir stjórn íslenskra valdhafa hefur hraði aukins misréttis, eyðileggingar umhverfis, einkavinavæðingar á þjóðar kostnað, mengun og glæpir, aldrei verið meiri. Lögin eru svo snauð af vörnum gegn glæpum að engu er líkara en þau séu sérsniðin fyrir glæpalýðinn. Af þeim sökum eiga dómarar oft í vandræðum og dæma sér þvert um geð. Eins er með lögregluna. Hún veit ekki hvað má og hvað ekki. Allt svo loðið og óljóst. Í átökum við nautheimsk vöðvatröll og siðlaust eiturlyfjahyski hættir starfsfólk þjóðarinnar, sem klæðist lögreglubúningum, lífi og heilsu og uppsker oft brigsl í stað þakklætis. Þingheimur gerir það lítið í þessum málum að sérfræðinga þarf til að sjá hvort eitthvað hafi breyst. Mér kemur í hug að framtaksleysi þingfólks sé ekki sofandaháttur heldur ofríki ráðherranna sem á móti óttast formenn sína. Störf alþingisfólks hafa í mörg ár mótast af tveimur flokksformönnum. Mikilvægast er að þóknast þeim til að halda vinnunni. Kjarkleysi veldur víða vandræðum. Ég trúi ekki að meirihluti Alþingis vilji það hrikalega misrétti sem nú varir í þjóðfélaginu. En ef svo er þá á þingfólk að láta þjóðina vita fyrir kosningar því hún vill ekki þurfa að skammast sín fyrir verk fulltrúa sinna. Ég held þó að svo verði ekki og mun venjubundin loforðahrina dynja fyrir kosningar. Það þarf nefnilega þor til að líkjast litla símamanninum. Ljóst er að mörg undanfarin ár hefur sýndarlýðræði aukist og náð að festa rætur. Það hefur byggst á lýðræði sem tveir ráða. Annar að nafninu til. Í lýðræðisríki eiga þingmenn ekki að vera peð flokksforingja, en einmitt þannig komst Hitler til valda. Ég hef komið í ríki múslima, en í mörgum löndum þeirra ríkir grimmdarfullt sýndarlýðræði og þar eru konur vanvirtar. Hér komast atvinnurekendur upp með að mismuna kynjum í launum. Forsætisráðherra Framsóknar segir skýrslu um kjör öryrkja sem prófessor gerði byggjast á misskilningi. Það segir það sem segja þarf um hug ráðherrans til aldraðra og öryrkja.

Hommar og lesbíur hafa lengi átt undir högg að sækja og er með ólíkindum hvað fordómar gagnvart þeim eru lífseigir. Engin getur breytt því sem hann er fæddur til. Það sagði ég konu sem hélt því fram að þessi hópur ætti að þakka fyrir það sem náðst hefði. Hún varð mér reið þegar ég sagðist ekki sjá að það gerði mér eða öðrum mein að fólkið fengi hjónavígslu í kirkju. Ég sagði henni að í gegnum aldirnar hlytu hagsmunaaðilar að hafa komist með fingurna í Biblíuna. Hún sagði að samkvæmt Guðs orði gæti mannlegur máttur ekki breytt orðum hans. Ég sagði greinilegan mun á minni trú og hennar. Margt ræddi ég við konuna en aðalatriði er að kirkjan sýni það umburðarlyndi sem hún boðar og henni er nauðsyn til að halda velli.

Nýlega dæmdi múslimaríki marga homma til endurhæfingar og hýðingar, auk áralangrar fangelsisvistar. Verum sem fjærst slíkri grimmd og heimsku. Í framhaldi af þessu vil ég vara við að flytja inn í landið fólk sem getur ekki eða vill samlagast þjóð vorri. Við sjáum í Danmörku og víðar víti til að varast. Kristin trú, tungumálið, umhverfið og þjóðmenningin er aðalatriðið fyrir okkur Íslendinga. Við eigum alls ekki að skipta á menningu okkar fyrir fjölþjóðlega. Hver þjóð á að halda sínum einkennum. Vonandi sér þjóðin aðsteðjandi hættur.

ALBERT JENSEN,

Sléttuvegi 3, Reykjavík.

Frá Alberti Jensen:

Höf.: Alberti Jensen