Stoðkerfi líkamans veldur mörgum töluvert miklum þrautum. Þegar fólk dregst orðið varla um vegna verkja fer það ósjálfrátt að hugsa upp leiðir til þess að losna frá þessum þrautum.
Haraldur Magnússon er osteópati (líkamsmeðhöndlari) og hefur sérhæft sig í að koma þeim til aðstoðar sem búa við stoðkerfisverki. Auk þess að meðhöndla fólk lítur hann að eigin sögn til lífsvenja viðkomandi til að leita að lausnum.
En hvers vegna koma slíkir verkir?
"Þetta er ein stærsta spurning sem hægt er að spyrja, en mitt persónulega álit er að við séum komin of langt frá því sem líkami okkar eru hannaður til að gera. Við erum hönnuð til að hreyfa okkur, borða náttúrulegt fæði og lifa við hæfilega streitu. En nútímamaðurinn hreyfir sig takmarkað, borðar ruslmat og lifir í stöðugu stressi."
Hvað er til ráða þegar fólk er orðið heltekið af verkum í stoðkerfi?
"Ráð við stoðverkjum eru yfirleitt einhverjar æfingar og að hreyfa sig. En raunin er sú að stoðverkir eru oft heildarlífsstílsvandamál.
Fyrstu viðbrögð fólks við stoðverkjum eru yfirleitt að leita til líkamsmeðhöndlara og fá meðhöndlun sem á oft við en varanlega lausnin liggur oft í áðurnefndum þremur þáttum:
Mataræði
Hreyfingu
Streitu
Hluti af meðferðinni felst í að taka niður ítarlega sjúkrasögu þar sem farið er í lífsstílsþætti viðkomandi. Það kemur fólki ávallt á óvart hversu mikilvægt mataræði er í samhengi við stoðkerfaverki. Ég bendi gjarnan fólki, sem er með viðamikla og stöðuga stoðkerfisverki, á að fara til næringarþerapista sem gefur viðkomandi ráð um rétt mataræði. Ekki hentar öllum það sama en eigi að síður eru nokkur grundvallaratriði sem ber að nefna. Kaffi ætti fólk að drekka í hófi og helst fyrri hluta dags. Sykur og hveiti eiga allir að forðast í lengstu lög, þ.e. nammi, gos, kex, brauð og pasta, svo eitthvað sé nefnt. MSG (þriðja kryddið) og sætuefnið aspartam eru verkjahvetjandi og almennt mætti fólk minnka neyslu á kolvetnum og auka neysluá góðri fitu. Þetta er þveröfugt við það sem fólki er oft sagt. Nær undantekningalaust virkar þetta þannig að fólki fer að líða betur, það finnur fyrir aukinni orku, minni eymslum og almennt meiri vellíðan.
Manneskja, sem líður að jafnaði illa, er með slen og þyngsli allan daginn, telur oft að þetta sé eðlileg líðan og verður hissa þegar líðanin breytist til hins betra með breyttu mataræði.
Eitt öfgafyllsta dæmi sem ég veit um er maður sem hafði þjáðst af stöðugum verkjum í yfir 20 ár og verið stöðugt í læknismeðhöndlun án árangurs. Verkirnir hurfu nánast alveg þegar hann breytti um mataræði. Stærsti grundvallarmisskilningur fólks varðandi mataræði er að halda að matur sé hollur ef hann inniheldur eitthvað hollt, sbr. vítamínbætt morgunkorn, sem er fullt af sykri, þegar hið rétta er að matur er hollur þegar hann inniheldur ekki neitt sem er óhollt. Þetta er grundvallaratriði. Matvælaframleiðendur eru sí og æ að ýta að okkur og blekkja okkur til að kaupa matvæli sem innihalda einn þátt hollan en marga óholla."
Hvað með hreyfinguna - hve þýðingarmikil er hún?
"Hún er mjög mikilvæg en verri er þó hinn gríðarlegi tími sem fólk ver sitjandi. Við erum engan veginn hönnuð til að sitja og hinn fullkomni stóll er ekki til. Eina ráðið er að standa reglulega upp og hreyfa okkur."
Hver er heppilegasta hreyfingin til að vinna gegn stoðkerfisverkjum?
"Sjaldan er eitthvað eitt best. Númer eitt er að fólk á að finna sér form á hreyfingu sem það hefur gaman af. Mikilvægt er að finna hreyfingu sem styrkir hinn veika hlekk viðkomandi. Ég skal útskýra; fólk laðast yfirleitt að því að gera það sem það er best í, sbr. að liðug og veikbyggð kona fer í jóga og stirður og sterkur karl fer að lyfta. Í þessu tilviki eru báðir aðilar að auka á vandamál sín. Áherslurnar eiga að vera aðrar. Auðvitað á liðug og veikbyggð kona að styrkja sig og stirður og sterkur karl að liðka sig."
Er ganga góð æfing?
"Erfitt er kannski að segja að ganga sé æfing en ganga er þó lífsnauðsynleg líkamanum. Hippokrates sagði: "Að ganga er mannsins besta lækning."
Gangan eykur lífsmagn líkamans og endurstillir hann. Fyrir þá sem ætla að ganga til að lífga upp á þreytt bak þá sýna rannsóknir að betra er að ganga rösklega en hægt.
Hröð ganga hreyfir meira við líkamanum. Hæg ganga hreyfir líkaman ekki nægilega til að dreifa álaginu. Þetta kannast flest fólk við úr verslunarferðum sínum."
Er streita mikill orsakaþáttur í stoðverkjum?
"Já, mjög algengt er að fólk tali um hin beinu tengsl álags og verkja. Sérstaklega í herðum, hálsi og í hnakkagrófinni. Hér er það sem höfuðverkir byrja oft. Það er erfitt að varast streitu, við ættum að finna okkur tíma á hverjum degi þar sem við getum slakað á og andað djúpt.
Sé þessa alls í stórum dráttum gætt þá lagast líðan fólks en séu verkirnir slæmir er nauðsynlegt að fá líkamsmeðhöndlun hjá fagfólki. Erfitt er að vita eða velja úr hinum fjölbreyttu meðhöndlunum og engin skotheld lausn er til sem hentar öllum, annars væri bara til ein tegund af meðhöndlun sem allir myndu nota.
Góð þumalputtaregla er að meðhöndlun ætti að vera farin að gefa árangur eftir þrjú til fimm skipti, eftir tegund vandamáls og umfangi. Gangi það ekki eftir ætti viðkomandi einstaklingur að leita eftir annars konar meðhöndlun.
Styrkur osteópatíu liggur í ítarlegri sjúkrasögu sem leggur grunn að persónusniðinni meðhöndlun sem samanstendur af fjölbreyttri tækni á borð við nudd, hnykki, liðlosun og höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun."
gudrung@mbl.is