Danska skáldkonan Lene Kaaberbøl hefur skapað óvenjulegan heim í bókum sínum um ávítarann og börn hennar. Bækurnar eru fjórar að tölu og er Ávítaratáknið önnur í röðinni en fyrsta bókin, Dóttir ávítarans, kom út 2004. Í heimi bókanna eru það ekki trúarbrögð og prestar sem hafa hemil á fólki, heldur ávítarar sem eru kvenkyns. Ávítarinn þarf einungis að horfa á fólk og nota raddbeitingu til að sjá í huga þess og fá það til að skammast sín og játa misgjörðir sínar. Stúlkan Dína er sú persóna sem mest er í sviðsljósinu í Ávítaratákninu en hún hefur erft ávítarahæfileika móður sinnar.
Í bókinni segja systkinin Davín og Dína frá til skiptis í fyrstu persónu, hann er sextán ára og hún ellefu. Sagan lýsir grimmum heimi ofbeldis og kúgunar þar sem ill öfl reyna stöðugt að ná völdum. Systkinin berjast hvort á sinn hátt, Davín með sverði en Dína með hæfileikanum sem hún hefur fengið í arf frá mömmu sinni. Tími bókanna er óljós og svið atburða líka, líkt og vaninn er með fantasíubækur. Ýmislegt minnir á norrænar síðmiðaldir en stundum fannst mér ég flakka um söguslóðir Bróður míns Ljónshjarta og þess á milli um heimaslóðir Hobbitans.
Í Ávítaratákninu særist ávítarinn alvarlega og sonurinn Davín ætlar að hefna fyrir móður sína. En hann lendir í vandræðum og snýr til baka með þær slæmu fréttir að systir hans Dína hafi verið tekin til fanga eftir að hún hefur reynt að koma bróður sínum til aðstoðar. Davín leggur af stað til að leita systur sinnar og freista þess að frelsa hana, en hún hefur lent í höndum óvinarins sem pínir hana til að nota ávítarahæfileika sína honum til þægðar. Söguþráðurinn er nokkuð einfaldur en afar spennandi og persónusköpunin vel unnin, allt frá aðalpersónum til eftirminnilegra aukapersóna sem setja skemmtilegan svip á söguna.
Hugmynd höfundar Ávítaratáknsins, að búa til heim í kringum manneskju sem sér í huga fólks og notar þá hæfileika til að afhjúpa syndaseli, er býsna góð. Sagan er trúverðug að því leyti að persónurnar eru ekki einfaldar ofurhetjur og Lene Kaaberbøl leggur rækt við mannlega þáttinn hjá sögupersónum sínum. Dína og Davín berjast við illa óvininn Drakan og drekaher hans, en þegar kemur að því að Davín þarf að beita ofbeldi fær hann samviskubit og líður illa. Þannig er siðferðilegum spurningum velt upp og vopnaskakið er alls ekki sjálfsagður hlutur.
Bækurnar um ávítarann og börn hennar eru afar vinsælar á Norðurlöndum og hafa einnig verið þýddar á ensku. Íslensk þýðing Hilmars Hilmarssonar er lipur og hnökralaus og þessar vel gerðu og spennandi bækur hafa sjálfsagt aflað sér dyggs lesendahóps á Íslandi. Þeir lesendur bíða áreiðanlega í ofvæni eftir næstu bók.
Þórdís Gísladóttir