Heiðar Helguson fagnar með félaga sínum, Collins John, eftir að sá síðarnefndi skoraði sigurmark Fulham gegn Sunderland eftir sendingu frá Heiðari.
Heiðar Helguson fagnar með félaga sínum, Collins John, eftir að sá síðarnefndi skoraði sigurmark Fulham gegn Sunderland eftir sendingu frá Heiðari. — AP
JOSE Mourinho og lærisveinar hans í Chelsea fögnuðu enn einum sigrinum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Chelsea sótti West Ham heim og hafði betur, 3:1, en Liverpool, sem fyrir leikina í gær hafði tapað næst fæstum stigum í deildinni, varð að sætta sig við 2:2 jafntefli við Bolton.

Ég get ekki annað en verið hæstánægður með leikmenn mína sem hafa verið frábærir. Við unnum fjóra leiki á átta dögum og á það stefndum við fyrir jólatörnina. Skiptingin í seinni hálfleik þegar ég setti Crespo inn á gekk fullkomlega upp. Við hefðum hæglega getað skorað fleiri mörk en West Ham verðskuldaði það ekki," sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir sigurinn gegn West Ham en það var níundi sigur meistaranna í röð eða frá því þeir töpuðu fyrir Manchester United á Old Trafford í byrjun nóvember.

,,Markið sem við fengum á okkur á fyrstu sekúndunum í seinni hálfleik vakti okkur til lífsins. Við brugðumst við markinu einstaklega vel og unnum frábæran sigur," sagði Eiður Smári Guðjohnsen, í viðtali við Sky-sjónvarpstöðina. Eiður hóf leikinn á bekknum en kom inná fyrir Michael Essien á 12. mínútu, þegar hann haltraði af velli, og stóð vel fyrir sínu. Eiður fékk 7 í einkunn hjá Sky en hann lagði upp þriðja markið sem Didier Drogba skoraði. Menn hjá Chelsea óttast að Essien hafi ökklabrotnað.

Manchester United getur minnkað forskot Chelsea niður í 11 stig í kvöld takist liðinu að innbyrða þrjú stig gegn Arsenal á Highbury. Liverpool, sem er þremur stigum á eftir Man.Utd. en á leik til góða, náði ekki að vinna sinn 11. deildarsigur í röð en Evrópumeistararnir gerðu 2:2 jafntefli við Bolton á útivelli.

,,Þessi úrslit voru vonbrigði því mér fannst við eiga skilið að vinna eins og við spiluðum. Það er erfitt að spila á móti liði eins og Bolton sem spilar mikið upp á að fá föst leikatriði," sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir leikinn.