— Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Árið 1955 barst Sænsku akademíunni aldrei formlegt skeyti frá Jóni Helgasyni, Sigurði Nordal, Peter Hallberg og Ragnari Jónssyni þar sem mælt var gegn því að Gunnar Gunnarsson fengi nóbelsverðlaun það ár.
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is

Árið 1955 barst Sænsku akademíunni aldrei formlegt skeyti frá Jóni Helgasyni, Sigurði Nordal, Peter Hallberg og Ragnari Jónssyni þar sem mælt var gegn því að Gunnar Gunnarsson fengi nóbelsverðlaun það ár. Alltént er ekkert slíkt skeyti í vörslu akademíunnar.

Þetta kemur fram í svari akademíunnar við fyrirspurn Halldórs Guðmundssonar, ævisagnaritara Halldórs Laxness, en í gær var fimmtíu ára leynd lyft af skjölum akademíunnar um aðdragandann að því að Halldóri Laxness voru veitt nóbelsverðlaunin árið 1955.

Halldór Guðmundsson fékk skjöl akademíunnar send í gærmorgun eftir nokkra eftirgangsmuni en aðalritari akademíunnar, Horace Engdahl, hefur ekki svarað formlegu erindi Morgunblaðsins um að fá aðgang að gögnunum.

Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn Gunnars skálds, hélt því fram í samtali við Morgunblaðið fyrir skömmu að umrætt skeyti hefði verið sent akademíunni. Hann sagði einnig frá símtali sem langafi hans hefði fengið frá akademíunni þar sem honum hefði verið tilkynnt að hann fengi verðlaunin.

Í bók Matthíasar Johannessen Málsvörn og minningar, sem kom út í fyrra, kemst hann meðal annars svo að orði: "Gunnar Gunnarsson sagði mér á sínum tíma að það hefði verið hringt í hann og honum skýrt frá því að hann fengi nóbelsverðlaun ... ég man ekki hver hringdi í hann, held þó Gunnar hafi sagt mér það. En það var áhrifamikill nefndarmaður í akademíunni."

Matthías sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sá sem hringdi í Gunnar hefði um leið óskað honum til hamingju með verðlaunin og sá Matthías ekki betur en að Gunnar hefði á sínum tíma verið sannfærður um að hann fengi þessi verðlaun. En það hefði svo breyst.

Matthías sagði hins vegar að Gunnar hefði aldrei minnst á neitt símskeyti við sig. "Ég heyrði hann aldrei nefna neitt símskeyti, né sýndi hann mér það."

Lagt til að Halldór og Gunnar skiptu verðlaununum

Í gögnum akademíunnar, sem opinberuð voru í gær, kemur fram að 23. september 1955 hafi Nóbelsnefndin, sem er þriggja manna undirnefnd akademíunnar sem á endanum velur verðlaunahafann, lagt til að Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness myndu skipta með sér verðlaununum þetta ár. Í nefndinni sátu Anders Österling formaður, Sigfrid Sivertz og Hjalmar Gullberg. Til vara lagði Österling til að belgíski rithöfundurinn Eugène Baie fengi verðlaunin og þriðji til vara yrði spænski höfundurinn Juan Ramón Jimenez sem hlaut verðlaunin árið 1956. Sivertz studdi tillögu Österlings en Gullberg skilaði séráliti og lagði til að Halldór fengi verðlaunin einn.

Ekkert kemur fram í gögnunum um að tillaga Österlings hafi hlotið hljómgrunn í akademíunni. Halldór Guðmundsson segir það staðfesta niðurstöðu rannsókna sinna sem byggjast meðal annars á lestri bréfa meðlima akademíunnar frá þessum tíma.

Halldór fékk tíu atkvæði og fimm tilnefningar

Í gögnunum kemur einnig fram að í lokaatkvæðagreiðslu akademíunnar um verðlaunahafann hlaut Halldór tíu atkvæði, spænski málfræðingurinn Ramón Menendez Pidal hafi fengið 3 og einnig Juan Ramón Jimenez. Tvö atkvæði skiluðu sér ekki, annað þeirra vegna þess að einn meðlima akademíunnar var annar látinn og ekki búið að skipa í hans stað. Akademían upplýsir ekki hverjir sátu fundinn.

Einnig kemur fram að fimm tilnefndu Halldór til verðlaunanna þetta ár, Elías Wessén, sem var sænskur fræðimaður og meðlimur akademíunnar, Sverker Ek, prófessor emertitus í bókmenntasögu við Gautaborgarháskóla, auk Jóns Helgasonar, Sigurðar Nordal og Steingríms J. Þorsteinssonar sem allir voru prófessorar í íslenskum bókmenntum og höfðu þess vegna rétt til að tilnefna.

Tveir tilnefndu Gunnar Gunnarsson, Henry Olsson bókmenntafræðingur og Harry Martinson rithöfundur.

Eins og fram hefur komið áður tilnefndi Stellan Arvidson hjá sænska rithöfundasambandinu Gunnar og Halldór saman til verðlaunanna.

Umsagnir um Gunnar og Halldór

Í greinargerð Österlings með tillögu sinni um að skipta verðlaununum á milli Gunnars og Halldórs segir hann kost og löst á höfundunum tveimur. Hann segir að Gerpla teljist ekki til mikilvægustu verka Halldórs og segir hana skopstæla fornsögurnar. Bendir Halldór Guðmundsson á því til skýringar að á þessum tíma hafi margir verið talsvert á móti því verki. "Það þótti ekki góð latína á þessum tíma að gera grín að Íslendingasögum." Österling segir ekki hægt að horfa fram hjá Gerplu þegar höfundarverk Halldórs sé skoðað í heild. "Hins vegar er því ekki að neita að ótæmandi náttúrulegar frásagnargáfur Laxness hafi gætt sögu og lyndiseinkunn Íslendinga lífi með þeim hætti að réttlætanlegt sé að viðurkenna hann, jafnvel þ ótt ekki sé hægt að setja hann að fullu jafnfætis öðrum norrænum verðlaunahöfundum sem frumlegt skáld."

Österling segir að Gunnar hafi verið tilnefndur á þriðja áratugnum en ekki hlotið mikinn hljómgrunn. Hann hafi síðan þá flutt heim til Íslands árið 1939 og skrifi nú á íslensku. "Ásamt yngri landa sínum Laxness, en kannski að vissu leyti í skugga hans, má jafnvel líta á hann (Gunnar) sem hina íslensku epísku meistara." Österling segir að nýjar rannsóknir á umfangsmiklu höfundarverki Gunnars sýni að það verði að líta á sögulegar skáldsögur hans, Fóstbræður frá 1918 og framhald hennar Jón Arason frá 1931, sem merkilegt framlag og fyrstu skipulögðu tilraunina til að lýsa leið íslensku þjóðarinnar til réttarríkis og þjóðarvitundar.

Einnig nefnir Österling Fjallkirkjuna sem hann segir virðingarverða, fulla af erfiðum, félagslegum reynsluheimi og mannlega grípandi ljóðrænu. Vandamálaskáldsöguna Sælir eru einfaldir segir hann vott um ærlega sálkannandi sagnalist Gunnars eins og hjarðsöguna litlu og ógleymanlegu, Aðventu.

Österling segir það óréttlátt að verðlauna einungis Halldór á meðan Gunnar sé enn starfandi höfundur, auk þess sem höfundarverk Gunnars rími ótvírætt betur við þau mannúðargildi sem verðlaunin standi fyrir. Hann segir að hugsanlega muni álit fjölmiðla snúast á sveif með Halldóri en til lengri tíma litið sé affarasælast að veita þeim báðum verðlaunin.

"Enginn fótur fyrir sögunni"

LARS Lönnroth, prófessor í bókmenntafræði við háskólann í Lundi, fékk í gærmorgun að kanna skjöl sænsku akademíunnar um veitingu Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum árið 1955. Hann segist ekki sjá nokkur merki um að raunverulega hafi komið til greina að Gunnar Gunnarsson fengi verðlaunin en íslenskir andstæðingar hans hafi komið í veg fyrir það.

"Ég get sagt strax að það er enginn fótur fyrir því sem fram hefur komið í yfirlýsingum ættingja Gunnars," sagði Lönnroth. "Það er ekki neitt símskeyti frá Sigurði Nordal, Jóni Helgasyni eða hinum. Ég las nokkur bréf frá Jóni Helgasyni og Sigurði Nordal sem voru í skjalasafninu. Það var ekkert neikvætt um Gunnar Gunnarsson í þessum bréfum.

Það er augljóst að ekki var rætt um Gunnar í þessu sambandi fyrr en seint í ferlinu. Stungið var upp á Halldóri Laxness fyrst árið 1948, aftur 1949, einnig 1950, 1951, 1952 og 1953. Aldrei var stungið upp á Gunnari Gunnarssyni þessi ár. En nokkrir liðsmenn akademíunnar voru andvígir Laxness vegna róttækra stjórnmálaskoðana hans og þess vegna reyndi Anders Österling að þreifa fyrir sér um málamiðlun. Myndu þá Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness deila verðlaununum.

En þetta kom fram býsna seint í ferlinu, árið 1955, og hinum félögum akademíunnar leist ekki á hugmyndina. Þeim fannst rangt að skipta verðlaununum, þeir voru almennt á móti því að skipta bókmenntaverðlaununum. Þeir sögðu ekkert neikvætt um Gunnar, voru almennt jákvæðir í hans garð en töldu einfaldlega að Laxness væri meiri rithöfundur. Þess vegna ákváðu þeir að hann fengi verðlaunin einn."

Lönnroth sagði að nokkrar deilur hefðu verið í akademíunni á lokasprettinum en það hefði verið vegna þess að margir vildu taka spænska skáldið Jimenez fram yfir Laxness sem hefði að lokum sigrað naumlega. Jimenez fékk síðan verðlaunin næsta ár, 1956.

"Ég held að öll þessi saga um að Gunnar Gunnarsson hafi fengið að vita að hann hefði hlotið verðlaunin, sagan um símskeytið, um póstmeistarann sem sagði Gunnari frá því, sé ekki annað en goðsögn. Þetta er skáldskapur.

Ég er ekki með þessu að segja að ættingjar Gunnars Gunnarssonar hafi skrökvað vitandi vits. Það getur verið að þeir hafi ímyndað sér að hlutirnir hafi gerst með þessum hætti. Þeir hafa kannski misskilið eitthvað og hugmyndin þannig orðið til. En eftir að hafa séð skjölin tel ég að hægt sé að segja að ekki sé minnsti fótur fyrir þessari sögu," sagði Lars Lönnroth prófessor.

Efaðist um að sterk gögn fyndust

"EINS og ég sagði í viðtalinu við Morgunblaðið [17. des. sl.] gerði ég ekki ráð fyrir því að það mundu finnast einhver skerandi skjöl eða sönnunargögn. Þetta var alltof viðkvæmt málefni til þess," segir Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn Gunnar Gunnarssonar rithöfundar þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við því að símskeyti frá fjórmenningunum hafi ekki fundist.

Hann segir að þó að skeytið hafi ekki fundist sé ekki þar með sagt að þessi samskipti hafi ekki átt sér stað og hann sé enn fullviss um að svo hafi verið. "Enda kom það skýrt fram í viðtalinu við Halldór [Guðmundsson í Kastljósinu í gærkvöldi] að menn töluðu sín á milli. Eftir stendur að meirihluti þriggja manna nóbelsverðlaunanefndarinnar hafði ákveðið að tilnefna þá saman en það er farið á móti meirihlutanum. Af hverju gerist það? Segir það ekki meira en nokkur orð?"

Gunnar Björn segist ekki geta sagt annað um málið en að það sé satt og rétt, sem fram hafi komið að Gunnari hafi verið boðin verðlaunin.

Hann segir að eflaust megi velta þessu máli fram og aftur en að Halldór Guðmundsson hafi nálgast alla umræðuna í Kastljósinu í gærkvöldi mjög vel og eins og sannur fræðimaður.

"Hann tók það skýrt fram að þótt þetta bréf hefði ekki fundist væri ekki þar með sagt að það hefði aldrei farið. Hann er að reyna að halda sig við staðreyndir og ég skil það vel. Ég get leyft mér að tala öðruvísi, sem hluti af fjölskyldu Gunnars," segir Gunnar Björn.

Aðspurður hvort það hafi komið honum á óvart að skeytið umrædda hafi ekki fundist segir Gunnar Björn svo ekki vera. "Ég held að svona stuttu eftir heimsstyrjöldina, 1955 þar sem Svíar höfðu verið hlutlausir, hafi þeir verið dauðhræddir við allt sem mætti túlka á þann veg að þeir væru hallir undir nasisma."

"Gunnar kom vissulega til greina"

"GUNNAR Gunnarsson kom vissulega til greina hjá sænsku akademíunni 1955 og það kemur skýrt fram í bréfum milli manna í akademíunni," segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson um þær niðurstöður Lars Lönnroths prófessors að Gunnar hafi aldrei komið til greina sem Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum það ár. "Auðvitað var Gunnar aldrei formlega tilnefndur til verðlaunanna, heldur var hugmyndin, eins og kemur fram í þriðja bindi bókar minnar um Halldór Laxness, að skipta verðlaununum milli Gunnars og Halldórs Laxness. En það var tvímælalaust gerð tillaga um Gunnar og nægir að benda á tillögu Sænska rithöfundafélagsins í þeim efnum og þriggja manna undirnefndar sænsku akademíunnar," segir Hannes.

"En niðurstöður Lönnroths koma mér ekkert á óvart. Ég er sannfærður um að símskeytið sem Gunnar frétti af í gegnum Andrés Þormar, hafi verið sent. En það er auðvitað ekki í gögnum akademíunnar. Lars Lönnroth getur því ekki fullyrt að sagan um símskeytið sé skáldskapur. Ég tók þá afstöðu í bókinni að trúa sögunni um símskeytið því ég tel enga ástæðu til að rengja hana. Ég er líka sannfærður um að það hafi verið unnið gegn því að Gunnar fengi verðlaunin. En eins og ég rek í bók minni var ekki mikill stuðningur við Gunnar í akademíunni. Um þetta vitna bréfaskipti Stens Selanders og Dags Hammarskjölds. Þar kemur fram að vissulega hafi verið gerðar tillögur um Gunnar 1955 en þær hlutu ekki miklar undirtektir í akademíunni."

Skáldbræður stinga saman nefnum

23. september 1955 lagði þriggja manna Nóbelsnefnd til að Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness myndu skipta með sér verðlauninum árið 1955. Myndin er tekin í móttöku er Gunnar var veitt Fálkaorðan.(myndatexti)