Hjónin Dmytríj og Natalja Bendyk í þorpinu Osestsjyna skammt frá Kíev verða líklega að vera dugleg við að höggva í eldinn á næstunni en segja má að neyðarástand blasi við í Úkraínu eftir að Rússar ákváðu að fimmfalda gasverðið. Úkraínumenn neita að hafa stolið gasi en segjast munu gera það kólni mikið í veðri.
Hjónin Dmytríj og Natalja Bendyk í þorpinu Osestsjyna skammt frá Kíev verða líklega að vera dugleg við að höggva í eldinn á næstunni en segja má að neyðarástand blasi við í Úkraínu eftir að Rússar ákváðu að fimmfalda gasverðið. Úkraínumenn neita að hafa stolið gasi en segjast munu gera það kólni mikið í veðri. — Reuters
Moskvu, París. AP, AFP. | Rússneska orkufyrirtækið Gazprom lofaði í gær að auka gasflutninga til Evrópu en það sakar Úkraínumenn um að hafa stolið gasi, sem ætlað var Evrópuríkjunum.

Moskvu, París. AP, AFP. | Rússneska orkufyrirtækið Gazprom lofaði í gær að auka gasflutninga til Evrópu en það sakar Úkraínumenn um að hafa stolið gasi, sem ætlað var Evrópuríkjunum. Hefur þetta mál vakið ýmsar gamlar spurningar um Rússa og hvort unnt sé að treysta þeim.

Um fimmtungurinn af því gasi, sem notað er í Evrópu, kemur frá Rússlandi um Úkraínu, en í gær vantaði 20 til 40% upp á gasstreymið í ýmsum löndum, til dæmis í Póllandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ungverjalandi og víðar. Gazprom krefst þess, að Úkraínumenn greiði heimsmarkaðsverð fyrir gasið, hátt í fimmfalt meira en þeir greiða nú, og fylgdi því eftir á sunnudag með því að minnka gasflutninginn um það, sem Úkraínumenn hafa notað. Virðast þeir hafa brugðist við með því að seilast í gasið, sem ætlað er Evrópu, þótt þeir neiti því að vísu.

Alexander Medvedev, aðstoðarforstjóri Gazprom, sagði, að gasflutningurinn yrði aukinn til að tryggja, að Evrópuríki fengju það, sem um hefði verið samið, og lýsti hann yfir vilja til að hefja aftur viðræður við Úkraínustjórn um gasverðið.

Áhyggjur og vaxandi efasemdir um Rússa

Deila Úkraínumanna og Rússa um gasverðið, sem margir telja, að sé einnig af pólitískum toga, hefur vakið áhyggjur í Evrópu og hafa orkuráðherrar Evrópusambandsins boðað til sérstaks fundar um hana á morgun. Þar við bætast áhyggjur af köldum vetri auk þess sem öll röskun hefur miklar efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Sem dæmi má nefna, að í gær skar ungverska orkufyrirtækið Mol gasflutninga til Serbíu, Svartfjallalands og Bosníu niður um helming en það er einna stærst í gassölu í þessum löndum.

Þótt ríki í Vestur-Evrópu noti aðeins rússneskt gas að tiltölulega litlum hluta þá má heita, að næstum allt gas í Austur-Evrópu komi frá Rússlandi. Með þá stöðu í huga spyrja margir sig hvort unnt sé að treysta Rússum og um það eru vaxandi efasemdir. Í gær minntu ummæli sumra fréttaskýrenda og neytenda um það einna mest á orðfærið á kaldastríðsárunum.