Verkjasjúklingur nýtur ráðgjafar.
Verkjasjúklingur nýtur ráðgjafar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ýmsir þurfa að búa við langvarandi verki og hafa reynt margt til þess að losna við þá.

Ýmsir þurfa að búa við langvarandi verki og hafa reynt margt til þess að losna við þá. Þegar í harðbakkann slær og allt hefur verið reynt án árangurs verða menn að sætta sig við verkina en það er þó ekki öll nótt úti, á Reykjalundi er starfrækt sérstakt meðferðarsvið þar sem fólki er hjálpað að lifa með verkjum. Yfirlæknir þar er Magnús Ólason.

"Við erum með þverfaglega nálgun við þrálátum verkjum," segir Magnús.

"Hópur starfsmanna hefur þjálfað sig sérstaklega við að aðstoða fólk með þráláta verki. Sérstaða okkar liggur m.a. í því að við losum fólk undan sterkum verkjalyfjum. Einfaldlega af því að þau leysa ekki vanda þeirra sem eru með þráláta verki þó þau hjálpi oft við bráðum sársauka. Síðan byggist meðferðin á því að taka á ýmsum fylgifiskum þrálátra verkja, svo sem streitu, kvíða, depurð, sorg og svefnleysi. Það nálgumst við m.a. með hugrænni atferlismeðferð. Öll meðferð á verkjasviði Reykjalundar hefur frá því að sviðið var byggt upp verið mjög atferlismiðuð. Ekki er eingöngu blínt á verkina heldur allt það sem fylgir þeim. Tekið er á öllu þessu - það er líkamlegum einkennum, sálrænum einkennum og félagslegum vandamálum sem oft fylgja þrálátum verkjum."

Gagnar þetta?

"Já, flestum. Aðalatriðið er að fólk sé viljugt að taka á vandanum með þeim hætti sem við leggjum til. Þetta snýst mjög gjarnan um að breyta algerlega um lífsstíl. Það er mjög margt sem fylgir þrálátum verkjum. Það er t.d.auðvelt að rata inn í neikvæðar hugsanir og fólk hættir að þora að gera það sem það hefur áður gert af ótta við verki. Maður með bakvandamál er kannski sífellt hræddur við að eitthvað alvarlegt sé að, sem er sjaldgæft. Meðferðin snýst um að sannfæra fólk um að það geti sjálft haft mikil áhrif á líðan sína og lifað betra lífi þrátt fyrir verki. Fólk losnar sjaldnast við verkina á þessum sex vikum sem það dvelst oftast hér hjá okkur."

Vill ekki sækja í sama farið þegar fólkið er útskrifað, þ.e. að taka verkjalyf og sökkva sér niður í neikvæðar hugsanir?

"Við rekum göngudeild en hún er rekin meira af vilja en mætti, okkur er frekar þröngt skorinn stakkur í fjárveitingum. Þetta er slæmt því þverfagleg því verkjameðferð er einn ódýrasti valkostur sem til er í þessum efnum. Þverfagleg meðferð með hugrænni nálgun hefur reynst vera eitt af fáu sem hefur sannað gildi sitt í gagnreyndum lækningarannsóknum á þrálátum verkjum.

Við þyrftum að fylgja mun fleirum eftir heldur en við höfum kost á. Við vitum nefnilega að það er miklu auðveldara að segja það en gera það að fylgja okkar ráðum og því auðvelt að detta niður í óvirkni og neyslu á sterkum lyfjum."

Er ávísað of miklu af verkjalyfjum?

"Um þetta eru ekki allir sammála en mitt álit er að svo sé. Öll hin svokölluðu verkjalyf eru ágætis lyf, rétt notuð. En að mínu áliti á einungis að nota þessi lyf við bráðum sársauka en ekki við þrálátum verkjum, sem ekki stafa af illkynja sjúkdómi. Þeir sem eru með það mikla verki að það truflar daglegt líf viðkomandi þurfa það stóra skammta af sterkum verkjalyfjum að þeir lenda fyrr eða seinna í þolmyndun og minnkandi verkun lyfjana. Þess vegna er þetta engin lausn fyrir þetta fólk, sem oft á tíðum lendir í þeim vanda að sitja uppi með bæði verkjavandamálið og líka lyfjavandamál. Það getur ekki losnað við lyfin, er orðið háð þeim. Þá þarf að hjálpa fólki út úr þeim vítahring."

Fylgja því mikil óþægindi að hætta að taka verkjalyf?

"Það fer eftir því um hvaða lyf er að ræða og í hvaða skömmtum þau er tekin. Ef sterk lyf eru tekin í stórum skömmum þá fylgja því oftast mikil fráhvarfseinkenni að hætta töku þeirra."

Hver er árangur hinnar þverfaglegu verkjameðferðar?

Við höfum gert rannsókn á árangri meðferðarinnar hjá okkur og hún kom mjög vel út, þetta var á árabilinu 1997 til 1999, yfir 150 s sjúklingar tóku þátt í rannsókninni. Innan við 20% voru vinnufærir sem komu inn í meðferðina en 50% voru vinnufærir þegar þeir útskrifuðust og 60% voru í vinnu ári eftir útskrift. Við erum með nýja rannsókn í gangi núna, hún hefur staðið í tvö ár og við höfum fengið styrk frá Rannís til að vinna úr henni. Við reiknum með að hún standi í eitt ár í viðbót. Þegar eru komnir 80 sjúklingar í þessa rannsókn og í henni erum við sérstaklega að skoða áhrif af hugrænni atferlismeðferð á þráláta verki."

Í hverju felst þessi meðferð?

"Eins og í orðinu þverfaglegur felst koma margir aðilar að meðferðinni. Verkjasjúklingurinn er auðvitað í aðalhlutverkinu. Við hin erum ráðgjafar sem erum að reyna að koma honum á rétta braut. Sjúkraþjálfararnir eru ekki eingöngu að teygja og toga sjúklingana, heldur eru þeir ekki síður að kenna þeim ýmislegt sem þeir geta sjálfir ástundað eftir að þeir hafa farið í gegnum meðferðina hjá okkur. Iðjuþjálfarnir fara m.a. í gegnum það hvernig á að umgangast líkamann við leik og störf, t.d. hvernig fólk á að sitja við tölvu o.s.frv. Hjúkrunarfræðingarnir eru nánast allir sérmenntaðir í hugrænni atferlismeðferð og stór þáttur í þeirra starfi hjá okkur er að annast þann þátt meðferðarinnar. Að öðru leyti má segja að meðferðin byggist upp á ýmiskonar hópmeðferð sem beinist að því að auka líkamsstyrk og þol viðkomandi. Síðan er gríðarleg áhersla lögð á fræðslu."

Er þetta sérlega ódýr kostur fyrir heilbrigðiskerfið?

"Langflestir sem til okkar koma eru með bakvandamál, eða um 50% og flestir hafa haft verki í langan tíma, um helmingurinn í yfir fimm ár. Í maíhefti breska læknablaðsins var gerður samburður á endurhæfingu og skurðaðgerðum við bakverkjum. Það var tveggja ára eftirfylgd í rannsókninni og þóttu báðir kostir jafn góðir hvað varðaði árangur, en mismunur á kostnaði var töluverður. Kostnaður með öllu í tvö ár var tæp 8000 pund af skurðaðgerð með eftirfylgd en 4500 pund af endurhæfingu. Aðrar rannsóknir hafa líka sýnt að kostnaður við endurhæfingu er tiltölulega lítill miðað við aðra kosti."

Hvað getið þið tekið marga inn í verkjameðferð á ári?

"Um 200 sjúklingar leggjast inn hjá okkur á ári og um 300 til 400 heimsóknir eru í göngudeild. Það eru biðlistar eftir meðferð hjá okkur, því miður. Álíka margir bíða og við getum annað á einu ári, eða ríflega 200 manns."

Hvað þyrfti að gera til þess að fullnægja eftirspurn?

"Við höfum verið að smáfækka á biðlistunum undanfarin ár en á móti kemur að við höfum sett mjög stífar reglur varðandi endurkomur inn í meðferðina. Slíkum sjúklingum fækkar því á biðlistunum. Ef við hefðum meiri möguleika á að taka móti fleirum í forskoðanir á göngudeild þá gætum við fyrr gripið inn í og beint sjúklingum í önnur úrræði en okkar sex vikna meðferð.Þetta væri leið til þess að draga úr biðtíma og fjölda sjúklinga á biðlista. Við núverandi fjármagn og mannafla er þetta ekki hægt."

Stellingar í dagsins önn

1. Þarna er verið að leiðbeina um vinnustellingar.

2. Þarna er iðjuþjálfi að fara yfir setstöðu.

3. Iðjuþálfi leiðbeinir sjúklingi um réttar hreyfingar við heimilisstörf.

(Myndatexti myndar nr. 5)