KJÖRI íþróttamanns ársins 2005 verður lýst í hófi á Grand hóteli Reykjavík um klukkan níu í kvöld, en það eru Samtök íþróttafréttamanna, SÍ, sem kjósa íþróttamann ársins og er þetta í 50. sinn sem SÍ stendur fyrir því.

KJÖRI íþróttamanns ársins 2005 verður lýst í hófi á Grand hóteli Reykjavík um klukkan níu í kvöld, en það eru Samtök íþróttafréttamanna, SÍ, sem kjósa íþróttamann ársins og er þetta í 50. sinn sem SÍ stendur fyrir því. Jafnframt er þetta í síðasta sinn sem styttan glæsilega, sem fylgt hefur kjörinu frá upphafi, verður afhent, en í reglugerð um kjörið segir að hana skuli afhenda í fimmtíu skipti en síðan falin Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu.

Þriðjudaginn 27. desember var upplýst hvaða íþróttamenn höfnuðu í tíu efstu sætunum í kjörinu að þessu sinni en í kvöld kemur í ljós hver hinna tíu hreppir hnossið að þessu sinni.

Nöfn þeirra sem til greina koma eru í stafrófsröð: Ásthildur Helgadóttir, knattspyrnukona úr Malmö, Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Chelsea, Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður í Halmstad, Hermann Hreiðarsson, knattspyrnumaður í Charlton, Jakob Jóhann Sveinsson, sundmaður úr Ægi, Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður í Napólí, Ólöf María Jónsdóttir, kylfingur úr Keili, Snorri Steinn Guðjónsson, handknattleiksmaður hjá GWD Minden og Þóra B. Helgadóttir, knattspyrnukona úr Breiðabliki.

Fjórir þessara íþróttamanna voru einnig á lista yfir tíu efstu í fyrra, þ.e. Eiður Smári, Hermann, Jón Arnór og Ólöf María. Eiður Smári var þá kjörinn íþróttamaður ársins í fyrsta sinn og var um leið fyrsti knattspyrnumaðurinn í 17 ára til að hreppa nafnbótina eða allt frá því faðir hans, Arnór Guðjohnsen, hlaut flest atkvæði í kjörinu árið 1987.

Í þau 49 skipti sem SÍ hefur staðið að kjörinu hafa 33 íþróttamenn orðið fyrir valinu. Oftast hefur Vilhjálmur Einarsson hreppt útnefninguna, fimm sinnum, sonur hans, Einar, Hreinn Halldórsson og Örn Arnarson hafa verið kjörnir þrisvar sinnum hver. Vilhjálmur, Einar og Hreinn eru úr hópi frjálsíþróttamanna en Örn er sundmaður.

Fyrir útnefninguna, eða klukkan 18.20, útnefnir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands íþróttakarl og -konu í hverri grein innan sérsambanda og sérgreinanefnda ÍSÍ. Þetta er í ellefta sinn sem SÍ og ÍSÍ halda sameiginlegt hóf þar sem kjör íþróttamanns ársins hjá SÍ er hápunktur kvöldsins.

Eftirtaldir íþróttamenn hafa verið kjörnir íþróttamenn ársins af SÍ frá 1956 að samtökin stóðu í fyrsta sinn fyrir kjörinu.

1956 - Vilhjálmur Einarsson,

frjálsíþróttir

1957 - Vilhjálmur Einarsson,

frjálsíþróttir

1958 - Vilhjálmur Einarsson,

frjálsíþróttir

1959 - Valbjörn Þorláksson,

frjálsíþróttir

1960 - Vilhjálmur Einarsson,

frjálsíþróttir

1961 - Vilhjálmur Einarsson,

frjálsíþróttir

1962 - Guðmundur Gíslason, sund

1963 - Jón Þ. Ólafsson,

frjálsíþróttir

1964 - Sigríður Sigurðardóttir,

handknattleikur

1965 - Valbjörn Þorláksson,

frjálsíþróttir

1966 - Kolbeinn Pálsson,

körfuknattleikur

1967 - Guðmundur Hermanns-

son, frjálsíþróttir

1968 - Geir Hallsteinsson,

handknattleikur

1969 - Guðmundur Gíslason, sund

1970 - Erlendur Valdimarsson,

frjálsíþróttir

1971 - Hjalti Einarsson,

handknattleikur

1972 - Guðjón Guðmundsson,

sund

1973 - Guðni Kjartansson,

knattspyrna

1974 - Ásgeir Sigurvinsson,

knattspyrna

1975 - Jóhannes Eðvaldsson,

knattspyrna

1976 - Hreinn Halldórsson,

frjálsíþróttir

1977 - Hreinn Halldórsson,

frjálsíþróttir

1978 - Skúli Óskarsson,

kraftlyftingar

1979 - Hreinn Halldórsson,

frjálsíþróttir

1980 - Skúli Óskarsson,

kraftlyftingar

1981 - Jón Páll Sigmarsson,

kraftlyftingar

1982 - Óskar Jakobsson,

frjálsíþróttir

1983 - Einar Vilhjálmsson,

frjálsíþróttir

1984 - Ásgeir Sigurvinsson,

knattspyrna

1985 - Einar Vilhjálmsson,

frjálsíþróttir

1986 - Eðvarð Þór Eðvarðsson,

sund

1987 - Arnór Guðjohnsen,

knattspyrna

1988 - Einar Vilhjálmsson,

frjálsíþróttir

1989 - Alfreð Gíslason,

handknattleikur

1990 - Bjarni Ágúst Friðriksson, júdó

1991 - Ragnheiður Runólfsdóttir,

sund

1992 - Sigurður Einarsson,

frjálsíþróttir

1993 - Sigurbjörn Bárðarson,

hestaíþróttir

1994 - Magnús Scheving, þolfimi

1995 - Jón Arnar Magnússon,

frjálsíþróttir

1996 - Jón Arnar Magnússon,

frjálsíþróttir

1997 - Geir Sveinsson,

handknattleikur

1998 - Örn Arnarson, sund

1999 - Örn Arnarson, sund

2000 - Vala Flosadóttir,

frjálsíþróttir

2001 - Örn Arnarson, sund

2002 - Ólafur Stefánsson,

handknattleikur

2003 - Ólafur Stefánsson,

handknattleikur

2004 - Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrna

2005 - ?????????????

Kjörinu verður lýst í beinni sameiginlegri útsendingu Sýnar og RÚV sem hefst kl. 20.45, en kl. 19.35 hefst útsending RÚV þar sem eitt og annað frá íþróttaárinu 2005 verður rifjað upp í máli og myndum auk viðtala við fólk úr íþróttahreyfingunni.