SJÓNVARPIÐ sýndi að kvöldi nýársdags áhugaverða heimildarmynd um pönktímabilið á Íslandi, og þá sérstaklega hljómsveitina Fræbbblana sem var hvað mest áberandi þegar pönkið var vinsælast í kringum 1980. Sýnd voru ný viðtöl við meðlimi hljómsveitarinnar, auk gamals viðtals úr kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík. Gaman var að sjá hinar miklu breytingar sem orðið hafa á þeim félögum á rúmlega tveimur áratugum, bæði útlitslegar breytingar og andlegar. Þegar leið á myndina sá maður þó fljótt að stutt var í gamla pönkarann í þeim öllum, enda ljómuðu þeir þegar þeir rifjuðu upp sögur frá þessum tíma, til dæmis sögur um baráttuna á milli pönksins og diskósins sem virðist hafa verið ansi hatrömm á köflum. Í lok myndarinnar sannaðist svo hið fornkveðna: eitt sinn pönkari, ávallt pönkari. Sýnd var ný upptaka með sveitinni sem hefur greinilega engu gleymt, eini munurinn var sá að það var einum hanakambi færra. Þá voru endurminningar Jóns Gnarrs frá tímabilinu stórskemmtilegar, og þá sérstaklega sagan af því þegar hann ætlaði að verða pönkari með bassanum sem hann hélt að héti Fner, en H-ið og ö-ið höfðu dottið framan af nafninu. Nokkur myndskeið í myndinni voru hins vegar stórfurðuleg, til dæmis myndir af gömlum jeppa að keyra yfir á, sem virtust lítið tengjast pönkinu, en sérstaklega var undarlegt þegar myndir af stórum ránfugli voru notaðar við söguna af því þegar páfagaukur flaug um á tónleikum Fræbbblanna og dritaði á tónleikagesti. Ekki ætti að vera mikið mál að rölta út í næstu gæludýraverslun og fá að taka nokkrar myndir af páfagaukum til að hafa með sögunni. En kannski voru kvikmyndagerðarmennirnir að reyna að vera svolitlir pönkarar sjálfir.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson