Frumflutt ný verk eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur, Charles Ross, Guðmund S. Gunnarsson og Ólaf B. Ólafsson. Tónlistarhópurinn Aton (Berglind M. Tómasdóttir flauta, Ingólfur Vilhjálmsson klarínett, Snorri Heimisson fagott, Áki Ásgeirsson trompet, Ingi G.

Frumflutt ný verk eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur, Charles Ross, Guðmund S. Gunnarsson og Ólaf B. Ólafsson. Tónlistarhópurinn Aton (Berglind M. Tómasdóttir flauta, Ingólfur Vilhjálmsson klarínett, Snorri Heimisson fagott, Áki Ásgeirsson trompet, Ingi G. Erlendsson básúna, Tinna Þorsteinsdóttir píanó/raforgel, Páll I. Pálsson rafbassi og Ólafur B. Ólafsson slagverk). Föstudaginn 30. desember kl. 21:30

"ATONAL Future"-hópurinn sem eitt sinn hét, en nú hefur stytzt í samnefni fornegypzka eingyðisgoðsins Atons, er enn ekki eldri en svo að framkomur hans miðast verulega við vetrar- og sumarleyfi meðlima frá framhaldsnámi. Gilti það t.d. um tímasetningu tónleikanna í Iðnó daginn fyrir gamlársdag, auk þess sem hann á eftir að leika á aðsteðjandi Myrkum músíkdögum. Eða svo mátti alltjent hlera í hléinu fyrir síðasta lið tónleikanna, sem var spurningakeppni.

Fjögur ný verk eftir meðlimi hópsins voru frumflutt við þetta tækifæri. Takmarkaður verkafjöldi, og ekki sízt torganleg lengd hvers þeirra (8-12 mín.), léðu tónleikunum viðkunnanlega létt yfirbragð, og ekki spillti heldur talsverð fjölbreytni í tónsköpun þrátt fyrir svipaða áhöfn. Því þó að sum verkin þyldu sjálfsagt nokkra styttingu upp á hlustvænleika, þá má segja að höfundar hafi almennt kunnað sér betra magamál en iðulega gerist í nýrri listmúsík.

Tilfinning hlustandans fyrir stefrænni þróun og "hreyfingu milli staða", sem fremstu höfundar innan vébanda gamla dúr/moll-tónkerfisins unnu svo frábærlega úr á fimmtán kynslóða skeiðinu milli 1600 og 1930-40, hefur síðan átt erfitt uppdráttar. Enda engu líkara en að stórauknu möguleikarnir á strúktúrstækkun í kjölfar tempraðrar stillingar hafi nánast gengið til baka eftir ótœni og seríalisma 20. aldar, því aðferðirnar sem komu í staðinn virðast einfaldlega sjaldnast duga í lengri þætti en 10-12 mín. Í því ljósi er kannski ekki skrýtið hvað heyrist orðið mikið af kyrrstæðumótuðum verkum, er gera jafnvel dyggð úr nauðsyn með því að höfða gagngert til "trans"- eða mókhyggju. Kjarni vandans felst e.t.v. einkum í eðlislægum óeftirminnileika nútímaúrvinnsluefnis á borð við litbrigði, sem duga skammt í stærri tímaeiningar miðað við sláandi melódísk stef og/eða hryn fyrri tíma í framlengingu ólíkra tóntegunda.

Sá vandi kemur vitanlega einna gleggst fram í verkum leitandi ungra tónskálda, eins og hér mátti heyra á dæmigerðu "epísódísku" ferli er gerði oftast meir út á andstæður nýs efnis en úrvinnslu upphafsins. Eða svo virtist a.m.k. við fyrstu heyrn í Aton [11'] Önnu Sigríðar Þorvaldsdóttur og í Devil Mask Aficionados [9'] eftir Charles Ross, er þó átti sér til ágætis launkímið aukabragð af fyrstu samæfingu bílskúrsbands algerra viðvaninga.

Aukin festa virtist hins vegar færast yfir með Skarstirni [8'] Guðmundar Steins Gunnnarssonar þrátt fyrir gisinn punktastíl í anda Weberns, og einna sterkast stóð eftir síðasta verkið, Smitferill [12'] slagverkarans Ólafs Bjarnar Ólafssonar, er bauð af sér einkennilegan þokka í sérstæðu hugarsamblandi af austurlenzkum ævintýrahelli Aladdins og iðandi kös vestrænna stórborga.

Þótt margt mætti efnilegt heyra innan um fjölskrúðuga dagskrá Atons, þá birtist kannski eftirminnilegasta og óvæntasta tóninnslag kvöldsins að utan - nefnilega í eina hlustunardæmi hinnar eftirfarandi verðlaunaspurningakeppni um nútímatónlist á hendur áheyrendum. Það var í 5. spurningu af 8, þar sem við kvað þétt skaraður en með ólíkindum fagur þriggja kvenradda kanon, er reyndist vera eftir bandaríska mínimalistann Steve Reich úr verki hans Proverb frá miðjum 10. áratug.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson