Þetta er frábær gjöf," sagði kenýsk vinkona við mig á aðventunni í Kenýa. Ég var nýkomin frá Súdan og langaði að gefa börnunum hennar jólagjöf. Við ákváðum að ég keypti tvo kexpakka.
Fjórum dögum síðar stóð ég ráðvillt í stórri verslun, nýlent á Íslandi. Ég var komin heim á seðlalausa landið þar sem 500 posafærslur voru framkvæmdar á mínútu á háannatíma fyrir jólin. Ég var komin aftur í samfélagið þar sem kexpakki í jólagjöf var álíka hallærislegur og að gefa ekki eitthvað rándýrt og rosalegt í fermingargjöf.
"Hvernig má það vera að lítil þjóð lengst norður í úthafi geti keyrt sig upp í jafnmikla neyslu?" tautaði ég andstutt meðan ég sneiddi hjá kúffullum innkaupapokum og velti fyrir mér hver bæri ábyrgð á brjálæðinu. Það var kannski ekkert skrýtið að hver og einn Íslendingur var með 250.000 krónur að meðaltali í yfirdráttarlán. Ef börnin voru dregin frá og allir þeir fullorðnu sem ekki höfðu yfirdrátt, hversu mikið skuldaði þá sjálft yfirdráttarfólkið? Samlandar mínir hlutu að hafa dottið illa á höfuðið að fjármagna botnlausa neyslu með lánum á 20 prósent vöxtum.
Á lokasprettinum fyrir jól komst ég að því að það voru auglýsendur sem höfðu dottið á hausinn. Þeim hafði skrikað svo illa fótur að þeir lágu án efa eftir með opið fótbrot. Hvernig gat nokkrum dottið í hug að auglýsa rándýrar gjafir undir slagorðinu "Sælir eru hófsamir"?
Vantrúa virti ég fyrir mér heilsíðuauglýsingu frá Símanum. Karlmaður lá á meltunni á stofugólfi, að því er virtist búinn að borða illilega yfir sig. Glaðbeitt stúlka hélt á risastórri jólagjöf. Þarna voru brosandi kona, stórt og vel skreytt jólatré og fleiri stæðilegir pakkar. Ætli í þeim leyndist kexpakki? Skilaboðin neðst á síðunni bentu til annars.
"Sælir eru hófsamir," las ég og hvessti augun á mynd neðst í hægra horninu af 25.000 króna gemsa með MP3-spilara og myndavél. Sér var nú hver hófsemin. Voru engin takmörk fyrir hræsninni? Greinilega ekki. Önnur auglýsing æpti á mig: "Ekki gleyma börnunum." Sem fyrr var 25.000 króna gemsinn á sínum stað.
Þar sem ég sat og horfði til skiptis á auglýsingarnar og aðventuljósin í glugganum sló það mig sem vinkona mín hafði sagt að sex ára dóttir hennar vildi ólm eignast gemsa. Hún skildi ekkert í því af hverju hún fékk ekki einn. "Já af hverju ætli það sé?" sagði ég ískalt og fnæsti að auglýsendur lifðu ekki í tómi og gætu ekki varpað frá sér ábyrgð sinni. Þeir fylgdu ekki hlutlausir eftir eltingaleik Íslendinga við hamingjuna í formi rándýrra tækja og tóla. Nei, þeir tækju þátt í að skapa þörfina fyrir sukkið. Þeir segðu okkur hvað væri eftirsóknarvert og hverju væri eðlilegt að eyða í jólagjafir.
Í sjónvarpinu brast á með þýðri röddu sem sagði mér að gleði yxi af gleði. "Gleðigjafinn í ár er skemmtilegra sjónvarp og þráðlaust internet." Ég hristi höfuðið. Við vorum orðin svo velmegandi að við þurftum skemmtilegra sjónvarp en við þegar áttum. Röddin hélt áfram í annarri Símaauglýsingu. "Sælla er að gefa en þiggja. Sæluríkasta jólagjöfin í ár er Sony Ericsson K700-myndavélasími á aðeins 9.900 krónur."
"Á aðeins tíu þúsund kall?" sagði ég, gnísti tönnum og íhugaði hvað ég myndi gera ef ég ætti þrjú börn sem öll vildu síma því þau væru jólabörn og maður ætti sko ekki að gleyma börnunum. Ég vissi heldur ekki hvernig ég brygðist við ef ég ætti foreldra sem grátbæðu um gjafabréfið sem Iceland Express auglýsti á tuttugu þúsund krónur. Það var samt ódýrt miðað við flatskjána sem tröllriðu auglýsingum. Ég myndi vitanlega ekki eiga fyrir herlegheitunum en sá í hendi mér, eftir andartaks umhugsun, að bankarnir myndu birtast sem frelsandi englar. Visa bauð líka greiðsludreifingu til allt að 36 mánaða. Ég gæti því skundað áhyggjulaus í Smáralindina, tekið jólin á lánum, brosað framan í bæði heiminn og afgreiðslufólkið, keypt mér hamingjuna og borgað af henni næstu þrjú árin. Gæfi ég fólkinu mínu flatskjá í jólagjöf gat ég einungis krossað fingur og vonað að hann yrði ekki jafnfljótt púkó og fótanuddtækin forðum daga.
"Nei, væri bara dálítið svekkjandi að vera enn að borga af einhverjum fótanuddsflatskjá í desember 2008," sagði ég hikstandi.
Á aðfangadag varð mér hugsað til kvennanna í Suður-Súdan sem höfðu spurt hvað Íslendingar ræktuðu og hvort fólkið í kringum mig væri allt heilt heilsu. "Er fólk á landinu þínu ekki voðalega ánægt?" glumdi í eyrum mér. "Við meinum ef flestir hafa nóg að borða og drekka og menn hafa ekki þurft að flýja út af átökum og geta bara notið lífsins. Vá, þið getið lifað eðlilegu lífi!"
Ég horfði vandræðaleg á jólatréð og fannst allt í einu að á Fróni hefðu hugsanir um það sem raunverulega skipti máli drukknað í auglýsingum eða gefið upp öndina einhvers staðar á hlaupum á eftir flatskjám og flottum jeppum. Var þetta eðlilegt líf?
Og var ég þá eitthvað betri, ég sem minnti mig væmin á það við kertaljós á jólanótt hversu óendanlega heppin ég var í þessu lífi? Nei, tveimur dögum síðar hafði ég borðað svo illilega yfir mig að ég bókstaflega ældi. Ég gubbaði af ofáti eftir að hafa troðið mig út af graflaxi, hangikjöti, ostum og súkkulaði, löngu eftir að ég var hætt að hafa nokkra lyst. Ég var skilgetið afkvæmi neyslusamfélagsins. Samfélagið mitt og ég vorum svo ofurvelmegandi að mig langaði til að æla. Sjálf var ég svo velmegandi að ég ældi í raun og veru.
Sigríður Víðis Jónsdóttir