Elín Margrét Hallgrímsdóttir, símenntunarstjóri Háskólans á Akureyri, gefur kost á sér í 1.-3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri í vor. Elín er með BS-próf í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í sömu grein með stjórnun sem sérgrein frá Glasgow-háskóla á Skotlandi.
Elín hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár og m.a. setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar, er varaformaður jafnréttis- og fjölskyldunefndar og aðalmaður í skólanefnd Menntaskólans á Akureyri.
Elín leggur áherslu á að með framboði sínu vilji hún stuðla að því að gera góðan bæ enn betri búsetukost fyrir fjölskyldur af öllum gerðum þar sem atvinna, menntun, menningar- og tómstundastarf sé fjölbreytt, heilbrigðis- og félagsþjónusta góð og einstaklingar eigi þess kost að njóta hæfileika sinna og líði vel. Á það ekki síst við um fólk með annan menningar- og trúarlegan bakgrunn.
Möguleikar sveitarfélagsins eru miklir sem felast fyrst og fremst í mannauðnum, árangur bæjaryfirvalda mun ekki síst velta á góðu samstarfi við þetta fólk, nágrannasveitarfélög og ríkisvaldið.