FRDDIE Ljungberg og Robin Van Persie verða hvorugur með liði Arsenal í kvöld þegar liðið tekur á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Ljungberg er veikur og Van Perise er meiddur í hné en Arsene Wenger vonast til að endurheimta Gilberto Silva úr meiðslum.
Ruud Van Nistelrooy kemur inn í byrjunarlið United á nýjan leik og þá heldur Sir Alex Ferguson í von um að geta teflt Paul Scholes, Wes Brown og Alam Smith fram en þeir voru fjarri góðu gamni gegn Bolton á gamlársdag.
Það gengur jafnan mikið á þegar þessir fornu fjendur etja kappi og vafalaust verður mikil barátta á Highbury í kvöld. United hafði betur í báðum rimmum liðanna í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, 2:0, á Old Trafford og 4:2 á Highbury en Arsenal kom fram hefndum í úrslitaleik bikarkeppninnar þegar liðið hafði betur í vítaspyrnukeppni.