Þeir sem vilja breyta lífsstílnum og sneiða hjá alls kyns óhollustu og aukaefnum leita í sífellt meira mæli eftir því að fá leiðbeiningar við matvöruinnkaupin og vilja jafnvel láta velja alveg fyrir sig, segir Helga Mogensen verkefnastjóri.
"Starfsfólk Maður lifandi hefur ekki farið varhluta af þessari þróun og hefur því í vaxandi mæli tekið að sér viðskiptavini sem koma við og sækja pokann sinn. Þessir viðskiptavinir koma jafnvel á hverjum degi, borða hjá okkur og taka svo með heim eða í vinnuna skammt fyrir daginn," segir Helga.
Hún segir að vissulega séu fleiri karlmenn en konur í þessum hópi og nú í janúar verður boðið upp á leiðsögn á ákveðnum dögum og tímum dags, til þess að sinna þessari auknu þörf.
Fljótlegt og hollt
"Auðvitað höldum við líka áfram að þjónusta alla einstaklingsbundið eins og við höfum áður gert. Þetta er bara viðbótarþjónusta, og verður miðlað fróðleik til viðskiptavina um það hvernig þeir geta búið til gómsætar krásir með einföldum hætti án þess að víkja af vegi hollustunnar," segir hún.Helga leggur áherslu á að eigin framleiðsla fyrirtækisins sé sífellt í sókn og að viðskiptavinir kunni vel að meta að geta komið og gripið með sér tilbúna rétti í hádegis- eða kvöldmatinn og einnig sé í boði t.d. soðin brún hrísgrjón, steiktar kjúklingabringur (án sykurs), tilbúnar sósur o.fl. sem auðvelt sé að blanda saman og búa til máltíð með skjótum hætti.
Í nýjum upplýsingabæklingi er að finna ýmsan fróðleik varðandi hollan lífsstíl og einfaldar uppskriftir sem allir ráða við. Einnig fylgja nokkrar hollar og auðveldar uppskriftir frá Helgu.
Leiðsögn Helgu um verslunina byrjar 4. janúar og verður í Borgartúni 24 á miðvikudögum klukkan tíu og í Hæðasmára á fimmtudögum klukkan 16.