Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í Vesturbæjarlaug að bjóða upp á dagsbirtulampa. Þessir lampar eru ætlaðir fólki sem er að kljást við skammdegisóyndi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að um 10,5% Íslendinga eru haldin því sem kallað hefur verið skammdegisóyndi og þar af eru 3,6% þunglynd. Skammdegisóyndi lýsir sér í því að þeir sem af því þjást sýna einkenni um depurð, skerta virkni eða athafnaleysi, kvíða, bráðlyndi, þreytu að degi til, aukna svefnþörf og kyndeyfð. Birtumeðferð þessi gengur út á það að fólk situr fyrir framan til þess gert ljós í ákveðinn tíma. Ekki er um meðferð gegn þunglyndi að ræða.
Telja má að tæplega 12.000 Reykvíkingar fái einkenni skammdegisóyndis ár hvert.
Lamparnir voru settir upp í Vesturbæjarlaug að frumkvæði verkefnisins Reykjavíkur - heilsuborgar og í samtali við Sigmar B. Hauksson verkefnisstjóra kemur fram að árstíðabundið þunglyndi hafi verið skilgreint sem sjúkdómur 1984. "Vetraróyndi er heilkenni sem lýsir sér í geðlægð sem kemur ávallt fram á sama tíma ár hvert og stendur yfir vetrarmánuðina. Það hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að birtumeðferð dregur úr einkennum sjúkdómsins." Sigmar segir einnig að lamparnir geri sama gagn og ferð suður á bóginn. "Geðlægðin kemur alltaf fram í skammdeginu og birtumeðferð, hvort sem er ferð suður á bóginn eða í lömpunum, hefur betri líðan í för með sér." Að sögn Sigmars eru dagsbirtulamparnir seldir í verslunum og nokkuð er um að fólk sé með þetta heima hjá sér. "Ef árangurinn af lömpunum í Vesturbæjarlaug verður góður munum við setja þetta upp á fleiri stöðum."
Fastagestir í Vesturbæjarlaug nýta sér lampana
"Við fengum þessa lampa í Vesturbæjarlaugina í byrjun nóvember," segir Guðrún Arna Gylfadóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar. "Gestir voru forvitnir til að byrja með, fólk hélt jafnvel að þetta væri einhvers konar sólbekkir, til að verða brúnn í. Þegar fólk svo áttaði sig á hvað lamparnir geta gert hefur þeim gestum sem nota sér þá fjölgað. Sérstaklega á morgnana og kvöldin."Guðrún Arna segir að það sé ákveðinn hópur sem noti lampana, sumir bæta þessu við hressinguna sem felst í sundinu, aðrir koma eingöngu til að fara í lampa. "T.d. sagði ein kona mér að hún svæfi talsvert betur síðan hún byrjaði að nota þá og hún fann mun eftir vikunotkun. Ég frétti líka af öðrum sem hefur fundið fyrir skammdegisleiða í mörg ár, sá segist vera mun léttari og vill meina að notkun lampanna geri honum mjög gott."
Guðrún Arna segir að það hafi aukist að fólk komi eingöngu til að fara í lampa. Einnig sé mjög stór hópur fólks sem stundar sund áður en það fer í vinnu og nýti sér gjarnan að sitja um stund við lampa.
Einn viðmælandi Morgunblaðsins, sem er fastagestur í lauginni, hafði það að segja um lampana að þeir væru góð viðbót við sundlaugarferðina. Rútínan væri að fara í laugina, heitan pott og gufu. Eftir að lamparnir komu í laugina hefði þeim verið bætt við og viðmælandinn vissi til að fleiri fastagestir notuðu lampana að staðaldri.
Notkun lampanna er gestum að kostnaðarlausu.