FRIÐRIK Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, staðfestir að komið hafi óskir frá Alcan á Íslandi og Century Aluminium um að kaupa orku fyrir álver á Suðvesturhorninu. Orkan frá Norðlingaölduveitu, fáist niðurstaða í skipulagsmálið, yrði seld til þeirra. Friðrik segir að í raun sé þó erfitt að segja til um hverjir muni hugsanlega kaupa rafmagnið frá Norðlingaölduveitu enda sé á þessari stundu óvíst hvenær framkvæmdir geti hafist.
Alcan hefur í hyggju að stækka álverið í Straumsvík og Century Aluminium hefur kannað möguleika á að reisa nýtt álver í Helguvík.
Norðlingaölduveita er ekki virkjun heldur vatnsmiðlun sem myndi veita auknu vatni til virkjana Landsvirkjunar á Tungnaársvæðinu. Neðar í Þjórsá, við Núp og Urriðafoss, hefur Landvirkjun þegar fengið leyfi til að reisa virkjanir sem munu gefa um það bil þrefalt meiri raforku en yrði til með Norðlingaölduveitu en Friðrik segir að þær yrðu ekki eins arðsamar.
"Það hafa komið fram óskir tveggja stóriðjufyrirtækja um að kaupa orku fyrir álver á Suðvesturlandi. Leiði viðræður við þessi fyrirtæki til orkukaupasamnings, verður orkan frá Norðlingaöldu notuð til að mæta þeim þörfum, það er að segja ef niðurstaða verður komin í skipulagsmálið í tæka tíð. Hagkvæmni og arðsemi veitunnar felst í því að ekki þarf að virkja sérstaklega til að nýta orkuna frá veitunni. Meira vatn rennur í gegnum Vatnsfellsvirkjun, Sigöldu, Hrauneyjafoss og fyrirhugaða Búðarhálsvirkjun, með þeim afleiðingum að uppsett afl þeirra nýtist betur. Orkugeta Norðlingaölduveitu er um 600 gígavattsstundir á ári sem er svipað og Búðarhálsvirkjun í Tungnaá gefur," segir Friðrik.
Friðrik segir að á sínum tíma hafi staðið til að raforka frá Norðlingaölduveitu yrði seld álverinu á Grundartanga en þar sem málið hafi tafist í kerfinu hafi álverið keypt orkuna frá Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.
Landsvirkjun hefur leyfi til að reisa virkjanir í neðri hluta Þjórsár, við Núp og við Urriðafoss. Friðrik segir að verið sé að hanna virkjanirnar og að Landsvirkjun geti hafist handa við þær með stuttum fyrirvara. Það verði þó ekki gert fyrr en samningar um orkukaup liggi fyrir. "Þær virkjanir eru ágætar en þær eru ekki eins arðsamar og Norðlingaaldan," segir hann.
Á vef Landsvirkjunar kemur fram að orkuvinnslugeta virkjunarinnar við Núp er áætluð um 1030 GWst á ári og orkuvinnslugeta virkjunarinnar við Urriðafoss um 920 GWst á ári.