New York. AFP. | Verktaki á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins hefur greitt nokkrum trúarleiðtogum úr röðum súnní-araba fé fyrir ráðgjöf varðandi áróður, að sögn dagblaðsins The New York Times. Flestir uppreisnarmennirnir sem berjast gegn Bandaríkjamönnum og her stjórnarinnar í Bagdad eru úr röðum súnní-araba.
Sama verkatakafyrirtækið, Lincoln Group, hefur greitt íröskum blöðum peninga fyrir að birta fréttir sem bandarískir hermenn höfðu skrifað og áttu að bæta álit erlenda herliðsins meðal almennings.
Að sögn heimildarmanns The New York Times fékk verktakafyrirtækið þau fyrirmæli frá varnarmálaráðuneytinu snemma á nýliðnu ári að "finna trúarleiðtoga sem gætu aðstoðað við að búa til efni sem gæti fengið súnníta í Anbar-héraði, þar sem mikið er um ofbeldi, til að taka þátt í kosningum og hafna uppreisnarmönnum".
Fyrirtækið hefur síðan haft í sinni þjónustu þrjá eða fjóra súnnítaklerka sem hafa gert skýrslur fyrir bandaríska herforingja. "En í skjölum og frásögnum liðsmanna Lincoln er sagt að tengsl fyrirtækisins við trúarleiðtoga og tugi annarra frammámanna í Írak hafi einnig það markmið að gera því [Lincoln] kleift að hafa áhrif á samfélagshópa í Írak fyrir skjólstæðinga sína, þar á meðal Bandaríkjaher," segir í frétt blaðsins.
Sagt er að frá maí til september hafi verið veittir alls 144.000 dollarar til verkefnisins. En ekki er ljóst hve mikið af því fé fór í greiðslur til súnnítaklerkanna og reyndar ekki hægt að sanna að þeim hafi verið greitt fyrir vikið. Ekki var heldur gefið upp hvaða menn var um að ræða.