ÍSLANDSNEFND Falun Gong fagnar áliti umboðsmanns Alþingis frá 5.

ÍSLANDSNEFND Falun Gong fagnar áliti umboðsmanns Alþingis frá 5. desember síðastliðnum þar sem segir að íslenska ríkisstjórnin hafi með ólögmætum hætti neitað Falun Gong-iðkendum um að koma til landsins meðan opinber heimsókn forseta Kína stóð yfir í júní 2002. Nefndin harmar að gripið hafi verið til aðgerða gagnvart iðkendum Falun Gong og vonast hún til þess að ríkisstjórnin muni nýta tækifærið til þess að bæta ástandið með því að bæta einstaklingum tjón sem þeir urðu fyrir vegna bannsins og afhenda nefndinni nafnalistann sem var notaður til þess að meina iðkendunum að koma til landsins. Nefndin hyggst eyða listanum.

Í yfirlýsingu frá Íslandsnefndinni segir að meðan á opinberri heimsókn forseta Kína á Íslandi stóð hafi iðkendur hvaðanæva úr heiminum nýtt eigin frítíma og fé til þess að ferðast til Íslands til að kalla eftir réttlæti fyrir framan þáverandi forseta Kína, Jiang Zemin. Fram kemur að hann hafi átt upptökin að því að ríkisstjórn Kína hóf ofsóknir á hendur Falun Gong-iðkendum.

Ekki í þágu þeirra sjálfra

"Viðleitni iðkendanna var ekki í þágu þeirra sjálfra heldur til þess að bjarga öðrum frá pyntingum og dauða, og til þess að deila þeim góðu lífsreglum um sannleika, samúð og umburðarlyndi með Íslendingum sem svo sannarlega tóku vel á móti iðkendunum og studdu velflestir rétt þeirra til ákallsins," segir í yfirlýsingunni.

Þá segir að nefndin hafi áhyggjur af nafnalistanum sem beri nöfn friðsamra og löghlýðinna Falun Gong-iðkenda. Litið er á listann sem brot á friðhelgi einkalífs og árás á mannorð einstaklinganna og á Falun Gong almennt.