Um 120 bílastæðum nálægt inngangi Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut verður breytt í skammtímastæði með gjaldtöku í janúarmánuði.
Um 120 bílastæðum nálægt inngangi Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut verður breytt í skammtímastæði með gjaldtöku í janúarmánuði. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Andra Karl andri@mbl.is STEFNT er að því að breyta bílastæðum sem næst eru aðalinngöngum Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut og í Fossvogi í skammtímastæði með gjaldtöku nú í byrjun nýs árs.
Eftir Andra Karl andri@mbl.is

STEFNT er að því að breyta bílastæðum sem næst eru aðalinngöngum Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut og í Fossvogi í skammtímastæði með gjaldtöku nú í byrjun nýs árs. Til að byrja með verða alls 180 skammtímastæði, 120 á milli kvennadeildarhúss og aðalbyggingar við Hringbraut og 60 stæði vestan við aðalinngang í Fossvogi, en að sögn Ingólfs Þórissonar, framkvæmdastjóra tækni og eigna LSH, er um að ræða tilraun til að bæta þjónustu fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu á spítalann.

Að undanförnu hefur verið unnið að því að fjölga bílastæðum við LSH við Hringbraut og eru þær framkvæmdir á lokastigi, búið er að taka um 270 ný bílastæði í notkun og aðeins er eftir vinna í kringum stæðin.

Forsendur fyrir fjölguninni eru m.a. þær að við færslu Hringbrautar skapaðist rými fyrir fleiri bílastæði og bættust 180 ný bílastæði við fyrir neðan Gömlu Hringbraut. Með fækkun akreina á Gömlu Hringbraut úr fjórum í tvær var einnig hægt að bæta við 60 stæðum og þá fást 30 ný bílastæði hjá geðdeildarhúsinu.

"Við erum að taka í notkun betri stæði en við höfum haft. Einnig er verið að malbika stæði og svo hefur umferð um gömlu Hringbraut minnkað mikið þannig að auðveldara er að komast yfir hana," segir Ingólfur og vonast til að breytingarnar komi til með að bæta úr brýnni þörf í bílastæðamálum sjúkrahússins. Hann vonast enn fremur eftir að ástandið í nærliggjandi íbúðargötum lagist en nokkuð hefur borið á því að gestir spítalans leggi ökutækjum sínum þar.

Hófleg gjaldtaka á virkum dögum

"Eins og þeir þekkja sem hafa þurft að sækja þjónustu á spítalann, þá hafa verið ákveðin vandræði við að finna bílastæði nálægt inngöngum spítalans. Nú ætlum við að gera tilraun með að taka, tiltölulega fá stæði til að byrja með, og hafa þau merkt sem skammtímastæði," segir Ingólfur en það er Bílastæðasjóður sem er í samstarfi við spítalann og sér um gjaldtöku. Reiknað er með að gjaldtaka hefjist nú í janúar og verður gjaldi stillt í hóf. Miðast það við 80 krónur á klukkustund frá átta á morgnana til fjögur á daginn alla virka daga.

Ingólfur segist ekkert nema gott hafa heyrt um skammtímastæðin enda sé fríum bílastæðum ekki að fækka, heldur þvert á móti fjölgar þeim um 150 stæði - við Hringbraut.