Arndís veitir svæðanudd við meðgöngukvillum.
Arndís veitir svæðanudd við meðgöngukvillum. — Morgunblaðið/Þorkell
Arndís Pétursdóttir nuddari rekur Nuddstofu Kaffi Hljómalindar á Laugavegi 21 á risloftinu. Hún lærði svæða- og viðbragðsmeðferðafræði (zonetherapi eða reflexologi) í Svæða- og viðbragðsmeðferðarskóla Íslands, sem er tveggja ára nám.

Arndís Pétursdóttir nuddari rekur Nuddstofu Kaffi Hljómalindar á Laugavegi 21 á risloftinu. Hún lærði svæða- og viðbragðsmeðferðafræði (zonetherapi eða reflexologi) í Svæða- og viðbragðsmeðferðarskóla Íslands, sem er tveggja ára nám.

Að ná fram örvun eða slökun

"Svæðameðferð og viðbragðsfræði er list snertingar, skynjunar og næmi," útskýrir Arndís. "Hún er virk aðferð til heilsubótar og á rætur að rekja árþúsundir aftur í tímann. Sérstakri nuddtækni er beitt á fætur til að hafa áhrif á tiltekna líkamsstarfsemi til heilsubótar. Líkamanum er skipt kerfisbundið í ákveðin svæði sem eru kortlögð á fótum sem áhrifasvæði. Með því að þrýstinudda þessi áhrifasvæði næst fram örvun eða slökun á tilteknum stöðum í líkamanum. Svæðameðferð byggist á þeirri kenningu að sérhvert líffæri og líkamssvæði eigi sér samsvörun á áhrifasvæði fóta. Sama gildir um hendur, allur líkaminn á sér áhrifasvæði á höndum. Svæðameðferð er afar árangursrík við að ná fram slökun og vellíðan og auka um leið orkuflæði líkamans og styrkja hann þannig til sjálfshjálpar."

Orkubrautir um hendur og fætur

Arndís segir ófrískar konur hafa sótt töluvert í að koma til sín í svæðameðferð. Ástæðurnar eru margar því óléttukvillar geti verið margskonar. "Sem dæmi get ég nefnt: grindarlos og grindarverki, bjúg, blóðleysi, ógleði, orkuleysi, þreytu, þunglyndi, depurð og kvíða. Besti árangurinn finnst mér vera þegar komið er ört t.d. tvisvar í viku í 2-3 vikur og svo hvíld í viku, þá endurskoðað og haldið við á tveggja vikna frest eftir því sem ástæða þykir til. Viðbragðsfræði nýtist sem þrýstimeðferð á taugaviðbragðssvæði og á punkta á orkubrautum líkamans þar sem þær liggja um hendur og fætur. Hún byggist á því að líkami okkar hafi orkukerfi, þar sem lífsorka flæðir eftir ákveðnum orkubrautum og að hægt sé að hafa áhrif á þetta orkukerfi, t.d. með þrýstimeðferð á punkta sem liggja á orkubrautunum. Viðbragðsfræði er notuð til að hafa markviss afmörkuð áhrif á orkukerfi líkamans."

Nudd er fyrir alla

"Ég upplifi að fólk almennt sé betur og betur að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hugsa vel um sjálft sig, þá á ég við með því að margir eru farnir að taka meiri ábyrgð á eigin heilsu. Að vera meðvitaður um að "líkaminn er musteri sálarinnar" og þess vegna er svo mikilvægt að sinna honum vel bæði andlega og líkamlega. Allir vita að mataræði er ákaflega stór hluti af heilsu okkar og regluleg hreyfing. Nudd er viðbót sem ekki er lengur litið á sem hreinan munað fyrir fáa útvalda. Svæðameðferðartími á meðgöngu, sem örvar sogæðakerfið og hreinsar það með því að losa um stíflur er óneitanlega betri kostur en heimsend pitsa, kók og brauðstangir og kostar það sama. Svo fær maður sér lífrænt ræktað epli á eftir fyrir fimmtíukall," segir Arndís brosandi.

"Svæðameðferð er að því leytinu eins og nálastunguaðferð að í stað þess að stinga í ákveðna punkta er þrýst á þá. En svæðameðferð er ekki enn viðurkennd af landlækni líkt og nálastungan," segir Arndís sem vonar að brátt geti Íslendingar valið sér meðferðarúræði við hinum ýmsu kvillum og fengið niðurgreitt af ríkinu eins og þeir einir fá nú sem leita til sjúkraþjálfa.