Jakobína Sigurðardóttir
Jakobína Sigurðardóttir — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Margir þekkja þá sögu að auðvelt sé að léttast en erfiðara að halda þeim árangri, segir Jakobína Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari og eigandi Hreyfigreiningar, sem er heilsurækt og sjúkraþjálfunarstöð á Höfðabakka í Reykjavík.

Margir þekkja þá sögu að auðvelt sé að léttast en erfiðara að halda þeim árangri, segir Jakobína Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari og eigandi Hreyfigreiningar, sem er heilsurækt og sjúkraþjálfunarstöð á Höfðabakka í Reykjavík. Meðal þess sem þar er í boði eru þriggja ára svonefnd lífsstíls- og aðhaldsnámskeið. Námskeiðin bera heitið: Leiðin til léttara lífs.

Þeir sem skrá sig til þátttöku skuldbinda sig til þess að vera virkir á námstímanum, öll þrjú árin. Tólf manns eru að hámarki í hverjum hópi, útskýrir Jakobína. "Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni; eins konar skóli fyrir þá sem vilja léttast." Hún segir námskeiðið ætlað þeim sem hafa líkamsþyngdarstuðul yfir þrjátíu "og eru komnir á þann stað í lífinu að vera tilbúnir til að skuldbinda sig í langan tíma til að vinna sér inn betri heilsu".

Hún segir auðvelt að finna líkamsþyngdarstuðulinn. "Þú finnur hæð þína í öðru veldi og deilir þeirri tölu í þyngd þína," útskýrir hún. "Talið er æskilegt að stuðullinn sé ekki mikið yfir 25. Sé hann yfir þrjátíu er það of mikið."

Jakobína segir að fyrsti lífsstílshópurinn hafi farið af stað í nóvember sl. "Og þeim gengur öllum mjög vel," segir hún. Þátttakendur fara í byrjun í læknisskoðun og skoðun hjá sjúkraþjálfara, en einnig fá þeir einkaviðtal hjá næringarfræðingi, sem fer m.a. yfir það hvað viðkomandi borðar. "Auk þess talar sálfræðingur við hvern og einn. Í samvinnu við sálfræðinginn fer fram atferlismótun, þ.e.a.s. fólk lærir að umgangast mat á nýjan hátt." Ennfremur er lögð áhersla á hreyfingu undir leiðsögn sjúkraþjálfara. "Þátttakendur eiga því að læra nýjan lífsstíl; þeir eiga að læra að umgangast mat á nýjan hátt og gera hreyfingu að miðpunkti lífs síns," segir hún.

Auk Jakobínu stýra verkefninu þær Sjöfn Kristjánsdóttir læknir, Helga Rut Einarsdóttir sálfræðingur og Sigríður Eysteinsdóttir næringarráðgjafi. "Þetta nám er smíðað eftir okkar hugmynd. Við höfum lengi fylgst með öllum þessum kúrum sem fólk er að fara í en bera ekki árangur, nema kannski í stuttan tíma. Við teljum því að taka þurfi þessi mál allt öðrum tökum þannig að varanlegur árangur náist."