— Morgunblaðið/Golli
Dans er holl og góð hreyfing.

Dans er holl og góð hreyfing. Þegar fólk hugsar um dans er það ekki að hugsa um líkamsrækt, en þegar fólk byrjar að læra dans þá kemur það því yfirleitt á óvart hversu mikil hreyfing er í dansinum, segir í fréttatilkynningu frá Dansskóla Jóns Péturs og Köru. Dansskóli Jóns Péturs og Köru flutti í nýtt húsnæði í haust, að Borgartúni 6. "Þetta er sögufrægt hús sem hefur gengið undir nafninu Rúgbrauðsgerðin. Það er nú að taka á sig endanlega mynd og er að verða hið glæsilegasta," segir ennfremur.

Kennsla hefst í skólanum miðvikudaginn 11. janúar og eru margvísleg námskeið á boðstólum.

* Börn 4-5 ára: Fyrir yngstu nemendurna, 4 til 5 ára, er boðið upp á dans, söng og leik. Kenndir eru dansar þar sem þau hreyfa sig í takt við tónlistina, syngja og leika. Einnig eru kenndir sígildir barnadansar s.s. fugladansinn, fingrapolki og skósmiðadansinn, svo eitthvað sé nefnt. Þessu er fléttað saman við tónlist svo börnin fái útrás fyrir þá miklu hreyfiþörf sem þau hafa, auk þess að þroska samskipti þeirra á milli. Kennt er einu sinni í viku í 40 mínútur í senn og er önnin í 14 vikur. Á haustönn er jóladansleikur og á vorönn er grímudansleikur.

* Börn 6-9 ára, byrjendur: Á dansnámskeiðum fyrir 6-9 ára byrjendur eru kennd fyrstu sporin í nokkrum samkvæmisdönsum, s.s. cha cha cha, enskum vals, samba og jive. Kennd eru fyrstu sporin af skottís og léttir freestyledansar. Einnig læra þau fjöruga partídansa. Lögð er áhersla á eðlileg samskipti og snertingu á milli kynja. Kennt er einu sinni í viku í 50 mínútur í senn og er önnin í 14 vikur. Á haustönn er jóladansleikur og á vorönn er grímudansleikur.

* 10 ára og eldri, byrjendur: Hjá eldri börnum og unglingum eru kenndir almennir samkvæmisdansar og nokkrir af gömlu dönsunum. Mest áhersla er lögð á suður-amerísku dansana cha cha cha, jive og samba. Kennt er einu sinni í viku í 50 mínútur í senn og er önnin í 14 vikur. Á haustönn er jóladansleikur og á vorönn er grímudansleikur.

* Börn og unglingar, framhald: Á framhaldsnámskeiðum er haldið áfram að byggja á þeim grunni sem börnin hafa lært og bætt inn fleiri dönsum og sporum. Kennt er einu sinni til fjórum sinnum í viku í 50 mínútur í senn og er önnin í 14 vikur. Á haustönn er jóladansleikur og á vorönn er vetrardansleikur.

* Freestyle: Á freestyle dansnámskeiðinu eru kenndir dansar þar sem dansað er við vinsælustu tónlistina. Stigin eru spor og dansaðar hreyfingar sem bregður fyrir á tónlistarmyndböndum. Kennt er einu sinni í viku í 50 mínútur í senn og er önnin í 14 vikur.

* Fullorðnir - samkvæmisdans: Fyrir fullorðna verður boðið upp á námskeið í samkvæmisdönsum. Á námskeiðinu fyrir byrjendur eru kenndir suður-amerískir dansar sem nýtast á dansleikjum, s.s. jive, cha cha cha, mambó og salsa ásamt tjútti og fleiri dönsum. Kennt er einu sinni í viku í 75 mínútur í senn og er önnin í 14 vikur. Á haustönn er jóladansleikur og á vorönn er vetrardansleikur.

* Salsa: Á þessu námskeiði eru kenndir suður-amerísku dansarnir mambo og salsa. Þetta eru skemmtilegir dansar við hina seiðandi suðrænu tónlist sem höfðar svo vel til okkar Íslendinga. Kennt er einu sinni í viku í 60 mínútur í senn og er önnin í 7 vikur.

* Salsa, einstaklingar: Kenndir eru sömu dansarnir og í paratímum, en settir upp eins og línudansar. Kennt er einu sinni í viku í 60 mínútur í senn og er önnin í 7 vikur.