Ólafur M. Magnússon
Ólafur M. Magnússon
"ÞETTA er alveg út í hött hvernig þeir setja þetta upp. Það var ekki gerð nein tilraun af hálfu Mjólkursamsölunnar til að fá upplýsingar frá okkur um hvernig við greiddum fyrir mjólk.

"ÞETTA er alveg út í hött hvernig þeir setja þetta upp. Það var ekki gerð nein tilraun af hálfu Mjólkursamsölunnar til að fá upplýsingar frá okkur um hvernig við greiddum fyrir mjólk. Það hafði enginn samband við okkur og þetta eru bara því miður algerar rangfærslur," segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku.

Varðandi verðsamanburð milli Mjólku og MS segir Ólafur að annars vegar sé greitt ákveðið grundvallarverð og hins vegar borgað fyrir próteineiningu og fitueiningu. Mjólka borgi 9,5% hærra fyrir bæði fitu- og próteineiningar og gefi einnig afslátt af flutningum, 38%.

"Þegar þetta er allt saman vegið saman þá er það verð sem við greiðum bændum 12,41% hærra en það sem Mjólkursamsalan borgar. Þetta er miðað við greiðslur fyrir mjólk á ársgrundvelli, en ekki teknar inn í einstaka greiðslur, eins og hvatningarálag, sem MS borgar. Það er bara tímabundið í þrjá mánuði vegna mjólkurskorts og ekki réttlætanlegt að taka það inn í grundvallarsamanburð. Ekki heldur er tekið inn í það álag sem Mjólka borgar bændum fyrir úrvalsmjólk, sem er auðvitað misjafnt eftir einstaklingum," segir Ólafur.

Aðspurður segir hann Mjólku þó ekki hafa í hyggju að svara bréfi MS eða bregðast sérstaklega við, enda sé bréfið tæpast svaravert og hafi greinilega verið skrifað í vanstillingu.

"Það er skammarlegt að fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan láti spyrjast að senda svona frá sér. Þeir hefðu hæglega getað hringt í okkur og fengið þessar upplýsingar ef þeir hefðu viljað. Okkur finnst þetta fyrst og fremst broslegt," segir Ólafur.