Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari hefur kennt vatnsleikfimi í fjölmörg ár.
Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari hefur kennt vatnsleikfimi í fjölmörg ár. — Morgunblaðið/Þorkell
Allir vilja koma sér í gott form á nýju ári. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Hörpu Helgadóttur sjúkraþjálfara, sem um árabil hefur kennt líkamsþjálfun í vatni sem að hennar sögn er ekki síður áhrifamikil en venjuleg líkamsrækt eða tækjaþjálfun.

Það er alkunna að það er miklu auðveldara að hreyfa sig í vatni en á þurru landi.

"Í vatninu minnkar álag um liði þar sem áhrif þyngdarkraftsins gætir mun síður," segir Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari sem í mörg ár hefur kennt líkamsþjálfun í vatni.

"Undir þessum kringumstæðum, þ.e. í vatni, er auðvelt að þjálfa upp þol og þrek. Það er hægt að leggja miklu meira álag á vöðva í vatni án þess að liðirnir verði fyrir of miklu álagi.

Fólk sem finnur fyrir óþægindum í liðum við líkamsþjálfun á landi en hefur fram til þess verið í góðu formi getur nú tekið þátt í kröftugum tímum í vatni og haldið uppi og jafnvel aukið þol sitt og þrek án þess að það komi niður á liðunum."

Stjórna má álaginu með hraða æfinga í vatninu

Henta sömu æfingar í vatni og í leikfimi á landi?

"Já, æfingarnar eru nokkuð svipaðar en hægt er að stjórna álaginu með því að auka eða minnka hraða æfinganna því vatnið veitir meiri mótstöðu þegar æfingarnar eru gerðar hratt. Ég læt fólk líka nota mótstöðuhanska til að auka álagið. Ef einhver vill ekki taka eins mikið á og sá næsti gerir hann bara æfingarnar hægar og sleppir mótstöðuhönskunum.

Vatnið veitir mikinn stuðning, jafnframt því að veita okkur þessa mótstöðu."

Hvenær var byrjað að gera markvissar líkamsæfingar í vatni?

"Eróbikkleikfimi í vatni hefur verið við lýði í útlöndum, bæði í Evrópu og Ameríku, um áratuga skeið, en hefur lítið verið iðkuð hér á landi.

Helst hefur vatnsleikfimi verið stunduð af ákveðnum hópum, svo sem af gigtarsjúklingum og fólki með einkenni frá baki eða hálsi. Slíkar æfingar í vatni hafa einkum verið notaðar við endurhæfingu hópa, svo sem bak- og gigtarhópa, og hópa af öldruðum og öryrkjum. Þetta hefur verið gert um árabil bæði á Reykjalundi og við endurhæfingarstöðina á Grensási og í Hátúni.

En sú líkamsrækt í vatni, sem ég hef kennt, er ætluð öllum þeim sem vilja góðar æfingar, hvort sem viðkomandi hefur einhverja verki eða ekki."

Hvað þarf til að stunda svona vatnsleikfimi eins og þú kennir?

"Bara að hafa ánægju af að vera í vatni. Það eru engin skilyrði önnur en að líða vel í vatni."

Nemendur gera bæði úthalds- og styrktaræfingar

Hvers konar æfingar læturðu skjólstæðinga þína gera?

"Þetta eru úthalds- og styrktaræfingar fyrir allan líkamann. Gætt er að góðri líkamsstöðu og líkamsbeitingu og einnig eru gerðar liðkandi æfingar og teygjur. Æfingarnar eru gerðar mjög svipað og þegar fólk er að vinna í hópum í þolfimi eða í tækjasal. Hugsað er um að virkja djúpa vöðvakerfið sem styður við liðina áður en farið er að nota stóru ytri vöðvana við handleggja- og fótleggjaæfingar.

Ég skipti nemendum mínum í hópa eftir því hve erfiðar æfingar þeir vilja og þola og hve hraður hver tími er. Ég skipti hópnum í hraða, miðlungshraða og hæga - eftir getu nemenda. Hver tími er 45 mínútur og eftir æfingarnar er farið í heitan pott, þar sem fólk nýtur þess að slaka á.

Ég er bæði með hádegistíma og eftirmiðdagstíma í sundlauginni við Hrafnistu í Laugarási og hægt er að velja um að vera tvisvar eða þrisvar í viku."

Er hægt að kenna svona vatnsleikfimi í hvaða sundlaug sem er?

"Nei, það þarf ákveðna þjálfunarlaug og vatnið má ekki vera kaldara en 32 gráður, þess vegna er dálítið erfitt að finna hentuga sundlaug til þess arna. Laugin þarf að vera það sem við sjúkraþjálfarar köllum æfingalaugar, slíkar laugar eru jafndjúpar og hlýjar. Þrjár slíkar eru í Reykjavík, við Hrafnistu í Laugarási, Hátúni og við endurhæfingarstöðina á Grensási."

Er þessi vatnsleikfimi eitthvað tengd spa-meðferð?

"Nei, þetta er ekki vatnsmeðferð heldur líkamsþjálfun, á þessu er talsverður munur. Spa er endurnæring og slökun en vatnsleikfimi er hugsuð sem líkamsrækt. Upplýsingar má finna á heimasíðunni www.bakleikfimi.is."

Höf.: Guðrún Guðlaugsdóttir